Heimsmet hjá Hodgkinson, breskt met hjá Asher-Smith og sænskt met hjá Larsson

Innanhússtímabilið er nú komið á fullt úti í heimi og fóru nokkur sterk mót fram um helgina. Hér verður farið yfir það helsta sem bar á góma á mótum helgarinnar.

Asher-Smith bætti breska metið í 60m

Fyrsta World Athletics Indoor Tour Gold mótið fór fram í Karlsruhe á föstudagskvöld. Þar var hvað mest spenna fyrir 60m hlaupi kvenna en heimsmeistarinn Mujinga Kambundji var mætt á ráslínuna ásamt Dinu Asher-Smith, Ewu Swoboda, Marie-Josee Ta Lou, Asha Philip og Daryll Neita. Philip þjófstartaði í undanúrslitunum og Ta Lou hrasaði í startinu í sínum riðli og komst ekki áfram. Hinar komust hins vegar örugglega í úrslitahlaupið en Asher-Smith hljóp þeirra hraðast á 7,04s.

Ahser-Smith vann síðan úrslitahlaupið á 7,04s sem var bæting á bresku meti Philip um tvo hundraðshluta. Ekki skemmtilegt kvöld hjá Philip sem byrjaði á að þjófstarta og missti svo landsmet sitt í hendur Asher-Smith. Swoboda kom önnur í mark á 7,09s og Kambundji þriðja á 7,11s.

Af öðrum úrslitum frá Karlsruhe má nefna að Anita Horvat vann 800m hlaup kvenna eftir mikla baráttu við Freweyni Hailu. Horvat, sem er búin að færa sig úr 400m upp í 800m, kom í mark á tímanum 2:00,44 en Hailu var aðeins tveimur hundraðshlutum þar á eftir í mark. Þá vann Daninn Benjami Lobo Vedel vann 400m hlaup karla á tímanum 46,45s en Spánverjinn Óscar Husillos varð annar á 46,63s.

Hinn 17 ára gamli Abdisa Fayisa frá Eþíópíu vann spennandi 3000m hlaup karla á 7:40,35 en Belginn Robin Hendrix varð annar á 7:40,53. Heimsmeistarinn Lemlem Hailu frá Eþíópíu vann 3000m hlaup kvenna á 8:37,55 en landa hennar, Wekuha Getachew, kom önnur í mark á 8:37,98.

Liadagmis Povea vann þrístökk kvenna með 14,64m, KC Lightfoot vann stangarstökk karla með 5,83m og Ivana Vuleta vann langstökk kvenna með 6,76m. Auriol Dongmo vann kúluvarp kvenna með 18,90m en heimsmeistarinn Chase Ealy, sem mun keppa á Reykjavíkurleikunum um næstu helgi, hafnaði í sjötta sæti með 18,61m. Þá vann Spánverjinn Enrique Llopis 60m grindahlaup karla á tímanum 7,57s en hann var einungis tveimur þúsundustu á undan landa sínum Asier Martinez.

Hodgkinson á besta tíma sögunnar í 600m

Keely Hodgkinson hljóp á besta tíma sögunnar í 600m hlaupi innanhúss þegar hún sigraði á Manchester Indoor Open mótinu fyrr í dag. Hún hljóp á tímanum 1:23,44 og bætti met Rússans Olgu Kotlyarova frá því 2004 um þrjá hundraðshluta úr sekúndu. Hodgkinson stórbætti breska metið en það var í eigu Jenny Meadows (1:25,81). Hodgkinson fór í gegnum 200m á 26,5s og 400m á 54,59s í hlaupinu í dag.

Sam Atkin setti einni breskt met um helgina. Það gerði hann þegar hann hafnaði í öðru sæti í 3000m hlaupi karla á John Thomas Terrier Classic mótinu í Boston á föstudag. Hann kom í mark á tímanum 7:31,97 og bætti met Mo Farah um rúma sekúndu. Hann bætti jafnframt sinn besta árangur um 15 sekúndur. Bandaríkjamaðurinn Yared Nuguse vann hlaupið á 7:28,24 og bætti bandaríska metið sem var í eigu Galen Rupp um tæpar tvær sekúndur.

Larsson setti sænskt met í 60m

Svíinn Henrik Larsson bætti sænska metið í 60m hlaupi þegar hann sigraði á Stockholm Indoor mótinu í dag. Hann hljóp á 6,56s og bætti 27 ára gamalt met Peter Karlsson um tvo hundraðshluta. Af öðrum úrslitum mótsins má nefna að Thobias Montler vann langstökk karla með 8,19m og Tilde Johansson vann langstökk kvenna með 6,63m sem er persónulegt met. Þá vann Danniel Thomas-Dodd kúluvarp kvenna með 18,62m en Fanny Roos varð þriðja með 17,90m.

Af öðrum úrslitum helgarinnar má nefna að Bandaríkjakonan Aleia Hobbs vann 60m hlaup kvenna á Razorback Invitational mótinu í Arizona á tímanum 6,98s. Hún jafnaði þar með Shelly-Ann Fraser-Pryce og Elaine Thompson-Herah í 9. sætinu yfir bestu tíma sögunnar.