Heimsmethafarnir Karsten Warholm og Mondo Duplantis opnuðu báðir innanhússtímabil sitt með glæsibrag sl. fimmtudagskvöld. Þeir kepptu báðir á mótum sem bera nafn þeirra – Warholm á Karsten Warholm Invitational mótinu sem fór fram í heimabæ hans, Ulsteinvik í Noregi, og Duplantis á Mondo Classic mótinu sem var haldið í Uppsala í Svíþjóð.
Duplantis reyndi við heimsmet
Ellefu af bestu stangarstökkvurum heims voru mættir í IFU Arena í Uppsala á fimmtudagskvöld. Mikil stemning og frábær umgjörð var í höllinni en stangarstökk var eina greinin á mótinu og því öll augu á stangarstökkvurunum. Duplantis byrjaði keppnina vel og fór yfir 5,67m, 5,82m og 5,91m í fyrstu tilraun. Þeir einu sem fóru einnig yfir 5,91m voru KC Lightfoot frá Bandaríkjunum og Ernest John Obiena frá Filippseyjum.
Duplantis felldi ránna í fyrstu tilraun sinni á 6,00m en flaug yfir í þeirri annarri. Lightfoot felldi í öllum í sínum tilraunum. Obiena felldi í fyrstu tveimur og freistaði þess að stela öðru sætinu af Lightfoot með því að geyma þriðju tilraun sína og reyna við 6,05m. Það gekk ekki og endaði hann í þriðja sætinu.
Þá var Duplantis einn eftir og ákvað hann að láta hækka ránna í 6,10m. Svíinn fór yfir þá hæð í þriðju tilraun við mikinn fögnuð viðstaddra. Eftir það lét hann hækka ránna í 6,22m sem er einum sentimetra hærra en núgildandi heimsmet hans. Það gekk ekki í þetta sinn og því endaði Duplantis með 6,10m en hann hefur aldrei áður stokkið svo hátt á fyrsta móti tímabilsins.
Warholm nálægt eigin meti
Karsten Warholm hafði ekki keppt í 400m hlaupi innanhúss síðan árið 2020 þegar hann sigraði á Karsten Warholm Invitational mótinu á tímanum 45,97s. Nú þremur árum síðar var hann aftur mættur á sama mótið í heimabæ sínum. Studdur dyggilega af áhorfendum hljóp Warholm hringina tvo á tímanum 45,31s sem er hans annar besti tími í 400m innanhúss. Evrópumet Austur-Þjóðverjans Thomas Schönlebe frá árinu 1988, sem Warholm jafnaði á EM 2019, er 45,05s. Landi Warholms, Havard Bentdal Ingvaldsen, varð annar í hlaupinu á 46,94s.
Af öðrum úrslitum á mótinu má nefna að Yaroslava Mahuchikh frá Úkraínu sigraði í hástökki kvenna með 1,99m. Þetta var hennar þriðji sigur á tímabilinu en hún hefur hæst stokkið 2,00m það sem af er ári. Þá sigraði Ólympíumeistarinn Elaine Thompson-Herah í 60m hlaupi kvenna á tímanum 7,30s.
Sænskt met hjá Danielsson
Warholm og Duplantis voru ekki einu Norðulandabúarnir sem gerðu það gott á fimmtudagskvöldið. Emil Danielsson setti sænskt met í mílu á móti í Ostrava í Tékklandi. Hann hljóp á 3:57,28 og bætti sex ára gamalt met Johan Rogestedt um tæpa sekúndu. Þrjú landsmet til viðbótar voru sett í þessu sama hlaupi. Elzan Bibic sigraði og setti serbneskt met (3:55,90), Filip Sasínek setti tékkneskt met (3:57,62) og István Szögi setti ungverskt met (3:58,00). Þess má geta að fyrr á tímabilinu setti Baldvin Þór Magnússon Íslandsmet í vegalengdinni þegar hann hljóp á 3:59,60.
Á þessu sama móti setti Tina Sutej slóvenskt met í stangarstökki kvenna þegar hún stökk yfir 4,82m sem er jafnframt hæsta stökkið í heiminum það sem af er tímabilinu.
Góður árangur í Gautaborg
Á fimmtudagskvöldið fór einnig fram mótið Gothenburg Games í Húsi frjálsíþrótta í Gautaborg. Þar sigraði Grikkinn Miltadis Tetoglou í langstökki karla með stökki upp á 8,12m. Heimamaðurinn Thobias Montler varð annar með 7,98m.
Julia Henrikson, einn besti spretthlaupari Svía um þessar mundir, sigraði bæði í 60m og 200m hlaupi kvenna. Hún hljóp á 7,34s í 60m og 23,60s í 200m. Kínverjinn Bingtian Su vann 60m hlaup karla á tímanum 6,59s. Þá vann heimamaðurinn Carl Bengtström 400m hlaup karla á 46,36s en Daninn Gustav Lundholm Nielsen varð annar á 46,93s.