New Balance Indoor Grand Prix mótið fór fram í Boston í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Startlistinn var stjörnum prýddur en mótið er hluti af gullþrepi World Athletics Indoor Tour mótararðarinnar.
Frábær byrjun hjá Bol
Kvöldið byrjaði með 500m hlaupi kvenna. Hollendingurinn Femke Bol var þar mætt á startlínuna ásamt löndu sinni Lisanne De Witte og Jamaíkukonunum Janieve Russel og Leah Anderson. Bol gerði sér lítið fyrir og sigraði á besta tíma sögunnar í greininni, 1:05,63. Hún bætti tíma Rússans Olesya Krasnomovets-Forsheva frá árinu 2006 um tæpa sekúndu. Anderson setti jamaískt met í öðru sætinu með 1:08,34 og Russel varð þriðja með 1:09,18. Frábær byrjun á tímabilinu hjá Bol sem stefnir á að verja titil sinn í 400m á EM innanhúss í næsta mánuði.
Hobbs vann 60m
60m hlaupi kvenna var beðið með mikilli eftirvæntingu. Sú sem hefur hlaupið hraðast í heiminum í ár, Bandaríkjakonan Aleia Hobbs, var mætt til keppni ásamt heimsmeistaranum í 200m hlaupi, Shericka Jackson, fyrrum heimsmethafanum í 100m grindahlaupi, Kendru Harrison, og heimsmethafanum í 400m grindahlaupi, Sydney McLaughlin-Levrone.
Einungis ein þessara kvenna komst hins vegar áfram í úrslitahlaupið. Hobbs hljóp hraðast allra í undanúrslitunum, 7,08s. McLaughlin Levrone hljóp á 7,33s og endaði níunda, Jackson hljóp á 7,34s og endaði tíunda og Harrison hljóp á 7,39s og endaði tólfta.
Hobbs vann síðan úrslitahlaupið örugglega á tímanum 7,02s. Mikiah Brisco var önnur á 7,10s og Celera Barnes þriðja á 7,21s. Hobbs hefur hlaupið hraðast á 6,98s í ár sem er þrettánda konan í sögunni sem hleypur undir 7 sekúndur í 60m hlaupi.
Lyles hársbreidd á undan Bromell
Bandaríkjamennirnir Noah Lyles og Trayvon Bromell komust báðir örugglega áfram í úrslitahlaup 60m haups karla. Lyles hljóp á 6,56s í undanúrslitunum en Bromell á 6,61s. Josephus Lyles, bróðir Noah, þjófstartaði og var dæmdur úr leik.
Bromell átti betra start í úrslitahlaupinu en Lyles reyndist sterkari seinni hlutann og náði Bromell á marklínunni. Ómögulegt var að sjá hvor hefði verið á undan í mark en það fór svo að Lyles var dæmdur sigur aðeins tveimur þúsundustu á undan Bromell. Þeir fengu báðir tímann 6,51s sem er bæting hjá Lyles um þrjá hundruðustu en Bromell á best 6,47s.
Sigurganga Holloway heldur áfram
Grant Holloway hefur ekki tapað 60m grindahlaupi síðan árið 2014. Engin breyting var þar á í gærkvöldi en hann vann hlaupið örugglega á tímanum 7,38s. Daniel Roberts varð annar á 7,46s og Freddie Crittenden þriðji á 7,55s.
Devynne Charlton frá Bahama-eyjum vann 60m grindahlup kvenna á tímanum 7,87s. Sharika Nelvis frá Bandaríkjunum var önnur á 7,93s og Celeste Mucci frá Ástralíu þriðja á tímanum 7,95s. Hin gamalreynda Lolo Jones, sem varð heimsmeistari innanhúss árin 2008 og 2010, rak sig illa í þriðju grind og endaði áttunda á tímanum 8,55s. Jones setti heimsmet í flokki 40-44 ára í síðasta mánuði þegar hún hljóp á 8,38s.
Af öðrum úrslitum má nefna að Bandaríkjakonan Heather Maclean vann mílu hlaup kvenna á nýju persónulegu meti, 4:23,42. Lucia Stafford frá Kanada var önnur í mark einungis tíu hundruðustu á eftir Maclean. Spánverjinn Esther Guerrero varð þriðja á nýju landsmeti, 4:24,92. Neil Gourley vann mílu hlaup karla á tímanum 3:52,84 sem er besti tími í heiminum í ár. Sam Tanner frá Nýja-Sjálandi kom annar í mark á 3:52,85 og Sam Prakel frá Bandaríkjunum var þriðji á 3:53,58.
Bandaríkjamaðurinn Noah Williams skákaði bæði Jereem Richards og Vernon Norwood í 400m hlaupi karla en naumara gat það ekki verið. Bæði Williams og Richards fengu tímann 45,88s en sá fyrrnefndi var fjórum þúsundustu á undan í mark. Norwood kom síðan í mark fjórum hundruðustu þar á eftir.
Ríkjandi heimsmeistari í 800m hlaupi karla innanhúss, Spánverjunn Mariano García, vann 800m hlaup á 1:45,26. Isiah Jewett varð annar á 1:45,75 og Mark English þriðji á 1:46,57. Ríkjandi heimsmeistari í 800m hlaupi kvenna innanhúss, heimakonan Ajee Wilson, vann 800m hlaup kvenna á 2:00,45. Landa hennar, Kaela Edwards, varð önnur á 2:01,09 og Bretinn Esabelle Boffey þriðja á 2:01,42.
Laura Muir frá Bretlandi vann 3000m hlaup kvenna á tímanum 8:40,34. Löndur hennar, Melissa Courtney-Bryant og Katie Snowden, voru í öðru og þriðja sæti. Courtney-Bryant hljóp á 8:41,09 og Snowden á 8:47,41. Woody Kincaid vann 3000m hlaup karla á 7:40,71. Christian Noble varð annar á 7:42,55 og James West þriðji á 7:42,89. Fyrstu átta í hlaupinu bættu sinn persónulega árangur.
Gabby Thomas vann 300m hlaup kvenna á 36,31s, Anna Kielbasinska varð önnur á 36,41s og Lynna Irby þriðja á 36,62s. Þá vann Bridget Williams stangarstökk kvenna með 4,77m, Gabriela Leon var önnur með 4,55m og Katerina Stefanidi þriðja, einnig með 4,55m.
Öll úrslit mótsins má sjá hér.