Erna Sóley stórbætti Íslandsmetið aftur

Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti í gær rúmlega vikugamalt Íslandsmet sitt í kúluvarpi kvenna innanhúss þegar hún varpaði kúlunni 17,70m á New Mexico Collegiate Classic mótinu í Albuquerque. Gamla metið var 17,34m en þetta er í fjórða sinn sem Erna Sóley bætir Íslandsmetið í greininni innanhúss. Hún hefur nú bætt metið samtals um 75cm það sem af er tímabilinu.

Bætti met Roos

Erna Sóley var ekki eini kúluvarparinn sem setti landsmet í gær því hin sænska Axelina Johanson bætti sænska metið í kúluvarpi kvenna innanhúss þegar hún varpaði kúlunni 19,30m á Frank Svigne Husker Invitational mótinu í Nebraska. Hún bætti þar með met Fanny Roos um einn sentimeter.