RIG: Kolbeinn bætti eigið Íslandsmet í 200m

Reykjavík International Games fóru fram í Laugardalshöll í dag. Mótið var hin mesta skemmtun og náðist frábær árangur í mörgum greinum. Má þar helst nefna Íslandsmet Kolbeins Haðar Gunnarssonar í 200m hlaupi karla.

Kolbeinn og Guðbjörg unnu tvöfalt

Það var mikil spenna fyrir 60m og 200m hlaupum karla og kvenna enda sterkir erlendir keppendur mættir til að keppa á móti okkar bestu spretthlaupurum. Í 60m hlaupi karla var búst við einvígi á milli Kolbeins Haðar Gunnarssonar og Englendingsins Richard Akinyebo. Það endaði svo að Kolbeinn vann hlaupið á tímanum 6,72s sem er einungis fjórum hundruðustu frá Íslandsmeti hans í greininni. Akinyebo varð annar á 6,77s en hann á best 6,73s. Arnar Logi Brynjarsson varð þriðji á tímanum 7,12s sem er jöfnun á hans besta tíma frá upphafi.

Í 200m hlaupinu var Kolbeinn aftur mættur á brautina. Þar atti hann kappi við annan Englending, Lee Thompson að nafni. Thompson hafði hlaupið á 21,13s í ár en Kolbeinn á 21,63s. Það fór hins vegar svo að Kolbeinn kom fyrstur í mark á tímanum 21,03s sem var bæting á Íslandsmeti hans frá árinu 2020 um 18 hundraðshluta. Glæsilegur árangur hjá Kolbeini. Thompson kom annar í mark á tímanum 21,27s og Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson varð þriðji á 22,56s.

Í 60m hlaupi kvenna mætti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir Hollendingnum Naomi Sedney sem á m.a. gullverðlaun frá EM 2016 í 4x100m boðhlaupi. Þetta var fyrsta hlaup Sedney á árinu en hún á best 7,22s frá árinu 2018. Guðbjörg reyndist sterkari í dag en hún kom fyrst í mark á tímanum 7,42s sem er sjö hundraðshlutum frá Íslandsmeti hennar. Sedney varð önnur á 7,44s og hin enska Leonie Ashmeade þriðja á 7,51s.

Guðbjörg og Sedney voru aftur mættar á brautina í 200m hlaupinu. Þarf hafði Guðbjörg einnig betur en hún kom í mark á tímanum 24,21s. Sedney kom önnur í mark á tímanum 24,81s og Englendingurinn Ella Blakey varð þriðja á 24,19s.

Ealy náði sér ekki á strik

Heimsmeistarinn í kúluvarpi kvenna, Bandaríkjakonan Chase Ealy, var meðal keppenda í kúluvarpinu í dag. Hún náði sér þó ekki á strik í keppninni. Fyrstu tvö köst hennar fóru út fyrir geira. Þriðja kast hennar var eins konar öryggiskast og mældist það 17,90m. Hún náði þó ekki að lengja sig í síðari þremur köstunum og gerði þau öll ógild. Ekki hennar dagur í dag en Ealy hefur verið að glíma við eymsli í rifbeinum sem hafa aftrað henni á æfingum undanfarið. Ealy vann þó kúluvarpið örugglega en hin enska Serena Vincent varð önnur með 16,15m.

Englendingurinn Lewis Byng vann kúluvarp karla með 18,09m. Guðni Valur Guðnason varð annar með 17,93m og Sindri Lárusson þriðji með 16,52m.

Irma nálægt sínu besta

Irma Gunnarsdóttir sigraði í langstökki kvenna með stökki upp á 6,34m sem er einungis tveimur sentimetrum frá hennar besta árangri. Íslandsmethafinn í greininni, Hafdís Sigurðardóttir, varð önnur með 6,17m. Hafdís nálgast óðum sitt fyrra form en hún er að vinna sig til baka eftir barnsburð. Birna Kristín Kristjánsdóttir hafnaði í þriðja sætinu með 6,04m.

Englendingurinn James Lelliott stal sigrinum í langstökki karla í síðasta stökki sínu. Hann stökk þá 7,45m og fór fram úr landa sínum Alexander Farquharson sem hafði stokkið lengst 7,38m. Daníel Ingi Egilsson varð þriðji með 7,22m.

Af öðrum úrslitum má nefna Norðmaðurinn Ole Jakob Solbu vann 800m hlaup karla á tímanum 1:48,79. Archie Parkinson frá Englandi kom annar í mark á tímanum 1:50,91 og Fjölnir Brynjarsson varð þriðji á 1:57,07s. Molly Hudson frá Englandi vann 800m hlaup kvenna á nýju persónulegu meti, 2:07,10. Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir varð önnur á 2:13,88 sem er einungis fimm hundraðshlutum frá hennar besta tíma. Embla Margrét Hreimsdóttir kom þriðja í mark á nýju persónulegu meti, 2:18,44.

Englendingar unnu svo tvöfalt í 400m hlaupunum. Dan Putnam vann karlahlaupið á 47,46s og Jessica Tappin kvennahlaupið á 55,78s. Karlamegin voru Sæmundur Ólafsson (49,50s) og Bjarni Anton Theódórsson (49,84s) í öðru og þriðja sæti. Kvennamegin hafnaði hin danska Zarah Buchwald í öðru sæti á tímanum 56,76s og Ingibjörg Sigurðardóttir í því þriðja á 57,30s sem er bæting á hennar besta árangri um ellefu hundraðshluta.

Elías Óli Hilmarsson vann hástökk karla en hann stökk hæst 1,93m. Hann reyndi þrívegis við 2,05m en felldi í öll skiptin. Markús Birgisson varð annar með 1,85m og Daníel Breki Elvarsson þriðji með 1,75m. Þá vann Árni Haukur Árnason 60m grindahlaup karla eftir harða keppni við Guðmund Heiðar Guðmundsson. Árni hljóp á 8,66s en Guðmundur á 8,70s.

Deginum lauk síðan með 4x200m blönduðu boðhlaupi. Þar voru þrjár sveitir mættar til leiks, sveit Íslands, Englands og blönduð sveit Norðulandabúa. Enska sveitin kom fyrst í mark á tímanum 1:31,18 en það voru þau Thompson, Tappin, Blakey og Akinyebo sem mynduðu sveitina. Íslenska sveitin með þeim Tiönu Ósk Whitworth, Helgu Margréti Haraldsdóttur, Anthony Vilhljálmi og Kolbeini Heði kom önnur í mark á tímanum 1:32,30. Norðulandasveitin, sem var skipuð þeim Louise Østergård, Buchwald, Nick Ekelund-Arenander og Hermanni Þór Ragnarssyni, var dæmd úr leik fyrir misheppnaði skiptingu.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.

Hér má svo nálgast upptöku RÚV frá mótinu.