Frjálsíþróttakeppni Reykjavík International Games (RIG) fer fram í Laugardalshöll í dag. Mótið er sterkasta frjálsíþróttamótið sem haldið er hér á landi en margir sterkir erlendir keppendur munu veita okkar besta frjálsíþróttafólki góða keppnni. Má þar helst nefna ríkjandi heimsmeistara í kúluvarpi kvenna, Chase Ealy frá Bandaríkjunum.
Á titil að verja
Chase Ealy mætti einnig á RIG í fyrra en þá vann hún með kasti upp á 19,21m. Teljast verður mjög líklegt að hún nái að verja titil sinn í ár. Keppt verður í blandaðri keppni í kúluvarpinu en aðeins ein önnur kona er skráð til keppni, Englendingurinn Serena Vincent.
Ealy hefur lengst kastað 20,51m. Það gerði hún þegar hún tryggði sér heimsmeistaratitilinn síðasta sumar. Best á hún 20,21m innanhúss en þeim árangri náði hún þegar hún vann silfurverðlaun á HM innanhúss í fyrra. Hún hefur kastað lengst 18,61m í ár. Vincent hefur hins vegar lengst kastað 16,33m.
Guðni Valur Guðnason er einnig skráður til keppni í kúluvarpinu og mun hann fá góða keppni frá Englendingnum Lewis Byng. Guðni á best 18,90m en hefur kastað lengst 17,63m í ár. Byng á best 18,50m frá því fyrr á þessu ári.
Íslandsmethafarnir í 60m fá góða keppni
Kolbeinn Höður Gunnarsson og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, sem bæði hafa sett Íslandsmet í 60m hlaupi á tímabilinu, eru skráð til keppni í bæði 60m og 200m hlaupi. Þau munu fá góða keppni frá sterkum erlendum keppendum.
Í 60m hlaupi karla mun Kolbeinn etja kappi við hinn enska Richard Akinyebo. Englendingurinn á best 6,73s frá því fyrr á þessu ári en Íslandsmet Kolbeins er 6,68s. Í 200m hlaupinu mun annar Englendingur, Lee Thompson, veita Kolbeini góða keppni. Besti tími Thompson er 21,13s frá því fyrr á árinu. Kolbeinn hefur hlaupið á 21,63s í ár en Íslandsmet hans frá árinu 2020 er 21,21s.
Í 60m hlaupi kvenna mun Guðbjörg mæta Naomi Sedney frá Hollandi, Louise Østergård frá Danmörku og Leonie Ashmeade frá Englandi. Sedney hefur hlaupið hraðast þeirra en hún á best 7,22s frá árinu 2018. Hollendingurinn hefur hins vegar enn ekki hlaupið í ár. Østergård á best 7,47s en hefur hlaupið hraðast á 7,76s í ár. Ashmeade á best 7,44s sem er frá því fyrr á þessu ári. Íslandsmet Guðbjargar er 7,35s. Það má því búast við hörkukeppni. Tiana Ósk Whitworth getur einnig blandað sér í baráttuna en hún hefur hlaupið á 7,64s í ár.
Guðbjörg og Sedney eru einnig skráðar í 200m hlaupið. Þar munu þær mæta Zarah Buchwald frá Danmörku og Ella Blakley frá Englandi. Sedney á bestan tíma þeirra innanhúss, 23,46s, en hún hefur ekki hlaupið vegalengdina innanhúss frá árinu 2016. Guðbjörg á best 23,98s frá RIG árið 2020. Blakley hefur hlaupið á 24,42s í ár en Buchwald á 25,66s
Spennandi langstökkskeppni framundan
Búast má við spennandi langstökkskeppni í dag. Íslandsmethafinn í langstökki, Hafdís Sigurðardóttir, mun mæta Íslandsmethafanum í þrístökki, Irmu Gunnarsdóttur. Hafdís hefur enn ekki keppt á tímabilinu en Íslandsmet hennar er frá RIG árið 2016, 6,54m. Hafdís er að vinna sig aftur til baka eftir barnsburð og spennandi verður að sjá hvernig henni mun ganga í dag. Irma hefur stokkið lengst íslenskra kvenna í ár, 6,36m, sem er annar besti árangur íslenskrar konu frá upphafi. Birna Kristín Kristjánsdóttir getur einnig blandað sér í baráttuna um sigurinn en hún hefur stokkið 6,11m í ár sem er fimmti besti árangur íslenskrar konu frá upphafi.
Karlamegin er Daníel Ingi Egilsson skráður til keppni en hann hefur stokkið lengst íslenskra karla í ár, 7,35m. Hann mun fá góða keppni frá Englendingunum James Lelliott og Alexander Farquharson. Lelliott á best 7,68m innanhúss en hefur stokkið lengst 7,45m í ár. Farquharson á best 7,77m innanhúss og 8,01m utanhúss en hann hefur stokkið lengst 7,66m í ár.
Í 800m hlaupi karla mun Kristinn Þór Kristinsson etja kappi við Ole Jakob Solbu frá Noregi og Archie Parkinson frá Englandi. Norðmaðurinn er sigurstranglegastur en hann hefur hlaupið á 1:48,67 í ár. Í 800m hlaupi kvenna er hin enska Molly Hudson sigurstranglegust en hún hefur hlaupið á 2:08,56 í ár. Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir á besta tíma Íslendinga í ár, 2:15,36.
Í 400m hlaupi karla munu Englendingarnir Jamal Clarke og Dan Putman berjast um sigurinn ásamt Svíanum Nick Ekelund-Arenander. Putman hefur hlaupið á 47,31s í ár en Clarke á 47,71s og Ekelund-Arenander á 48,44s í ár. Sæmundur Ólafsson hefur hlaupið hraðast Íslendinga í ár, 49,60s.
Jessica Tappin er líklegust til sigurs í 400m hlaupi kvenna en hún hefur hlaupið á 55,31s í ár. Zarah Buchwald frá Danmörku og Ingibjörg Sigurðardóttir vilja þó eflaust hafa eitthvað um það segja. Buchwald hefur hlaupið á 58,28s í ár og Ingibjörg á 58,51s.
Mótið hefst kl. 13:30 í dag. Við hvetjum öll til að leggja leið sína í Laugardalshöllina enda ekki á hverjum degi sem ríkjandi heimsmeistari keppir hér á landi. Hægt er að kaupa miða hér.
Fyrir þau sem komast ekki í höllina verður mótið sýnt í beinni útsendingu á RÚV og hefst útsending kl. 14:00.
Keppendalista og tímaseðil má sjá hér.