Allt sem þú þarft að vita um EM í Istanbúl

Hápunktur innanhústímabilsins þetta árið nálgast óðfluga en Evrópumeistaramótið hefst á morgun og stendur fram yfir helgi. Hér höfum við tekið saman allt sem þú þarft að vita til að njóta mótsins í botn.

Hvar: Istanbúl, Tyrklandi

Hvenær: 2. – 5. mars 2023

Ráslistar og úrslit:  Hér

Útsending: RÚV og RÚV2

Engin Asher-Smith og enginn Duplantis

Ekki frekar en fyrri daginn eru öll sammála um hvaða greinar eru áhugaverðastar en hér fyrir neðan förum við yfir það sem við hjá Silfrinu teljum að verði þess virði að fylgjast með.

Sem fyrrum spretthlaupari er það ef til vill ekki hlutlaust mat hjá mér að segja að 60 metra hlaupin séu alltaf áhugaverð. En ég geri það samt, enda eigum við keppanda bæði karla- og kvennamegin. Það eru þau Kolbeinn Höður Gunnarsson og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Guðbjörg hleypur í undanrásum á föstudagsmorguninn en Kolbeinn á laugardaginn.

Í karlahlaupinu verður Reece Prescod að teljast líklegastur en í ár hefur hann hlaupið 60 metrana hraðast á 6,49 sekúndum, sem jafnframt er persónulegt met og hraðasti tími Evrópubúa í ár. Sigurinn á hann langt frá því vísan því Ólympíumeistarinn Lamont Marcell Jacobs er einnig líklegur ásamt landa sínum Samuele Ceccarelli. Öllum að óvörum bar sá síðarnefndi sigurorð af þeim fyrrnenfda á ítalska meistaramótinu en aðeins munaði einum hundraðshluta úr sekúndu á þeim. Þeirra hröðustu tímar í ár eru 6,54 s (Ceccarelli) og 6,55 s (Jacobs). Alls eru 10 keppendur sem eiga ársbesta tíma á bilinu 6,54 – 6,59 skráðir til leiks svo búast má við harðri keppni um verðlaunasætin. Úrslit í 60 m hlaupi karla eru á dagskrá á laugardaginn klukkan 17:55.

Ekki má síður búast við harðri keppni í kvennahlaupinu en þar eru þó þrjár sem hafa verið í algjörum sérflokki í vetur. Mujinga Kambundji hefur hlaupið hraðast allra með tíma upp á 7,03 sekúndur en ásamt henni eru Daryll Neita (7,05 s) og Ewa Swoboda (7,09 s) þær einu af þeim sem skráðar eru sem hafa hlaupið undir 7,10 sekúndum. Dina Asher-Smith, sem fyrir nokkrum dögum setti nýtt breskt met í 60 m hlaupi (7,03 s) tekur ekki þátt. Komi ekkert óvænt upp á má því fastlega gera ráð fyrir að þær Kambundji, Neita og Swoboda stilli sér upp á verðlaunapallinum en í hvaða röð þær koma í mark er alls óvíst. Úrslit í 60 m hlaupi kvenna verða hlaupin á föstudaginn klukkan 18:45.

Auðvelt er að spá fyrir um sigurvegara 400 metra hlaups kvenna en það sem gerir greinina áhugaverða er hvort Femke Bol, sem helst er þekkt fyrir 400 metra grindahlaup á sumrin, takist að bæta eigið heimsmet sem hún setti á hollenska meistaramótinu um miðjan febrúar. Þá hljóp hún á 49,26 sekúndum og bætti fyrra met Jarmilu Kratochvílovu um þrjá tíundu úr sekúndu. Tími hennar er meira en sekúndu betri en næstbesti tími ársins í Evrópu en hann er í höndum Lieke Klaver, einnig frá Hollandi. Hvort sem Bol bætir metið eða ekki er það öllum ljóst að hún er í feykilega góðu formi og bíða margir spenntir eftir því að sjá tímana hennar þegar hún hleypur yfir grindurnar utanhúss seinna í vor og sumar. Úrslitin í 400 metra hlaupi kvenna verða á laugardaginn klukkan 17:30.

Femke Bol tók silfrið á HM í Eugene í fyrra en miðað við formið á henni í vetur gæti hún vel breytt því í gull á HM í Búdapest í sumar. Eða hvað?

Ríkjandi Ólympíumeistari og heims- og Evrópumeistari bæði innan- og utanhúss í stangarstökki, Armand Duplantis, hefur ákveðið að gera ekki tilkall til Evrópumeistaratitilsins að þessu sinni, þrátt fyrir að vera nýbúinn að setja nýtt heimsmet (6,22 m). Eflaust eru margir sem munu sakna hans en við getum þó glaðst yfir því að mögulega verður þá einhver spenna um hver hreppir gullverðlaunin, í fyrsta skipti í þó nokkurn tíma. Verðlaunin gætu þó enn farið til Norðurlandanna því Norðmaðurinn Sondre Guttormsen hefur stokkið hæst af þeim sem skráðir eru, 5,90 m. Hann hefur verið á góðu skriði undanfarin ár og spurning hvort sex metra múrinn fari að falla. Aðeins einn sex metra maður er skráður til leiks, Piotr Lisek, en hann hefur þó ekki stokkið nema 5,72 metra í ár en á best 6,02 metra síðan árið 2019. Mögulega getur hann nýtt sér reynsluna og fjarveru Duplantis til að bæta öðrum innanhústitlinum í safnið en hann sigraði stangarstökkið á EM 2017. Stangarstökkið verður á sunnudaginn klukkan 16:18.

Þá gæti nokkur spenna orðið um verðlaunasætin í fimmtarþrautinni. Ríkjandi heimsmeistari innanhúss, Noor Vidts, og Ólympíumeistarinn Nafissatou Thiam mætast þar en hvorug þeirra hefur klárað fimmtarþraut í vetur. Báðar eiga þær yfir 4900 stig, frá því í fyrra. Langbesta árángur ársins á Adrianna Sułek, 4860 stig. Það er því útlit fyrir harða baráttu um verðlaunapallinn. Fimmtarþrautin fer fram á föstudag og laugardag.