Evrópumeistaramótið í Istanbúl fór loks af stað í gærkvöldi og hélt áfram í morgun, þar sem Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir keppti í 60 metra hlaupi. Guðbjörg hljóp í fjórða riðli og kom síðust í mark á tímanum 7,56 sekúndum, 21 hundraðshlutum frá Íslandsmeti hennar sem hún setti fyrr í vetur. Guðbjörg endaði í 34. sæti af 37 keppendum. Til að komast áfram í undanúrslit hefði Guðbjörg þurft að hlaupa á 7,38 sekúndum eða betur og hefði því þurft að vera nokkuð nálægt Íslandsmetinu. Þrátt fyrir að hafa ekki náð sér alveg á strik í dag er hún augljóslega í fantagóðu formi og gefur árangurinn í vetur góð fyrirheit fyrir sumarið.
Með bestu tímana í undanrásunum voru þær Ewa Swoboda (7,11), Daryll Neita (7,14) og Mujinga Kambundji (7,18) og líklega fátt sem stoppar þær í að deila verðlaunapallinum.
Thiam með forystu eftir þrjár greinar af fimm
Fimmtarþrautin fór af stað í morgun og er þremur greinum lokið. Nafissatou Thiam leiðir með 3106 stig, 144 stigum á undan Adriönnu Sułek (2962 stig). Noor Vidts er svo í þriðja sæti með 2900 stig. Í grindahlaupinu voru þær Sułek og Vidts jafnar á 8,21 sekúndu en Thiam hljóp á 8,23 og munaði þá fimm stigum. Í hástökkinu stökk Thiam svo hæst og kastaði kúlunni lengst og er því komin með þægilega forystu fyrir síðustu tvær greinarnar. Thiam er betri langstökkvari en bæði Vidts og Sułek en slakari 800 metra hlaupari svo úrslitin eru langt frá því að vera ráðin.

Undankeppni í þrístökki kvenna fór fram í morgun en þar stökk engin nógu langt (14,10 m) til að tryggja sér beint sæti í úrslitunum. Þær Tuğba Danışmaz og Patrícia Mamona voru þó nokkuð nálægt því en þær stukku báðar 14,09. Mamona hefur stokkið lengst allra í Evrópu í ár (auk Maryna Bekh-Romanchuk sem ekki er skráð til leiks) og á titil að verja.
Þá voru undanrásir í 400 metra hlaupum karla og kvenna hlaupnar í morgun og kom þar fátt á óvart. Femke Bol og landa hennar Lieke Klaver komust örugglega áfram en hraðast hljóp Anna Kiełbasinska á tímanum 51,77 sekúndum. Karsten Warholm hljóp hraðast af körlunum á tímanum 45,75 sekúndum. Í ár hefur hann hlaupið á 45,31 sekúndum og á fínan séns á að komast nálægt eigin Evrópu- og mótsmeti frá 2019, 45,05 sekúndur.
Pichardo með landsmet í undankeppni þrístökksins
Í gærkvöldi voru hlaupnir undanriðlar í 800 metra hlaupum karla og kvenna, 1500 metra hlaupi karla og 3000 metra hlaupi kvenna auk þess sem undenkeppnir í hástökki kvenna, þrístökki karla og kúluvarpi karla og kvenna.
Í 800 metra hlaupi karla hljóp reynsluboltinn Amel Tuka hraðast en hann sigraði sinn riðil á tímanum 1:47,22 mínútum. Belginn Tibo De Smet, sem á besta tíma ársins í Evrópu komst nokkuð óvænt ekki áfram. Hann varð þriðji í sínum riðli á tímanum 1:48,43 en hefði þurft að hlaupa um hálfri sekúndu hraðar til að ná sæti í undanúrslitunum. Hann á best 1:45,04 síðan í janúar en hefur í öllum hlaupum sínum síðan þá verið nokkuð frá þeim tíma.
Í þrístökkinu var Portúgalinn Pedro Pichardo ekki að spara sig fyrir úrslitin því hann stökk strax í fyrstu tilraun langt yfir 16,70 metrana sem þurfti til að komast beint í úrslit. Stökkið var 17,48 metrar og nýtt portúgalskt met. Enginn annar stökk yfir 16,70 en keppnin um annað sætið gæti þó orðið spennandi.

Keely Hodgkinson átti besta tímann í kvennariðlunum, 2:01,67 mínútur. Talsvert þarf að fara úrskeiðis til að hún standi ekki uppi sem Evrópumeistari í lok mótsins því hún á ekki aðeins besta tímann í Evrópu í ár, heldur í öllum heiminum, 1:57,18. Tímann, sem jafnframt er breskt met, setti hún fyrir rétt rúmri viku síðan á lokamóti World Indoor Tour í Birmingham.
Ein stærsta stjarna mótsins, Norðmaðurinn Jakob Ingebrigtsen, komst áfram úr undanriðlum 1500 m hlaupsins. Hann hljóp í fyrsta riðlinum sem jafnframt var sá langhægasti og komst þar áfram á síðasta örugga sætinu og því hægasti hlauparinn af þeim sem komust áfram og með 19. besta tímann af 23 keppendum. Hann virtist þó taka því nokkuð rólega allt hlaupið enda full ástæða til að spara sig fyrir úrslitahlaupið þar sem hann mætir Neil Gourley, sem hefur hlaupið mjög vel í vetur. Úrslitahlaupið fer fram í kvöld.