EM í Istanbúl: Óvænt úrslit í 60 m hlaupi karla

Keppni laugardagskvöldsins á EM innanhúss í Istanbúl var ekki síðri en á föstudaginn og lauk með nokkuð óvæntum úrslitum í 60 metra hlaupi karla. En meira um þau síðar í þessari grein.

Fyrsta úrslitagrein kvöldsins var stangarstökk kvenna. Fyrir fram var Tina Šutej frá Slóveníu líklegust til sigurs, búin að stökkva hæst allra í Evrópu, 6,82 metra. Hún þurfti þó að játa sig sigraða fyrir Finnanum Wilmu Murto eftir spennandi keppni. Murto var mjög örugg á fyrstu hæðunum og fór í fyrstu tilraun yfir 5,45 m, 5,60 m og 5,70 m á meðan Šutej þurfti tvær tilraunir á bæði 5,60 m og 5,70 m. Næsta hæð var 5,75 metrar og Šutej á undan í stökkröðinni. Báðar felldu þær í fyrstu tilraun en Šutej fór yfir í þeirri annarri líkt og á hæðunum á undan. Murto þurfti hins vegar þrjár tilraunir og náði að halda sér á lífi í keppninni en þó búin að missa forystuna í hendur Šutej. Ráin var þá hækkuð í 5,80 m. Eins og áður felldi Šutej í fyrstu tilraun en Murto gerði sér lítið fyrir og flaug yfir og endurheimti forystuna. Þá var lítið eftir í stöðunni fyrir Šutej en að sleppa næstu tveimur tilraunum á 5,80 og freista gæfunnar frekar á 5,85 m. Hvorug þeirra fór yfir þá né hærri hæðir og Murto því krýnd Evrópumeistari. Í þriðja sæti hafnaði Tékkinn Amálie Švábíková með 5,70 metra.

Wilma Murto hafði sigur í stangarstökki eftir spennandi keppni við Tinu Šutej.

Á sama tíma var þrístökk kvenna í fullum gangi. Þar var ríkjandi meistari, Patrícia Mamona, mætt til leiks en hún á það til að tímasetja toppa sína fullkomlega á stórmótum. Henni brást þó sú list í þetta skiptið því hún náði ekki nema bronsi með 14,16 metra stökki í fyrstu tilraun. Það var heimakonan Tuğba Danışmaz sem tók forystuna í sínu fyrsta stökki með nýju landsmeti, 14,31 m, og hélt henni til loka. Ítalinn Dariya Derkach tók svo silfrið með 14,20 metra stökki í annarri umferð.

Allt eftir bókinni

Laura Muir frá Bretlandi sigraði 1500 metra hlaupið nokkuð örugglega eins og búist var við. Eftir að hafa hangið næst aftast fyrstu hringina vann hún sig hægt og rólega upp hópinn og var komin í annað sætið þegar um þrír hringir voru eftir. Einum hring síðar keyrði hún svo þægilega fram úr Claudiu Mihaela Bobocea frá Rúmeníu sem leitt hafði hlaupið frá upphafi og kláraði hlaupið á 4:03,40 mínútum, einni sekúndu frá eigin mótsmeti. Bobocea hélt öðru sætinu út hlaupið og Pólverjinn Sofia Ennaoui hafði bronsið.

400 metra hlaup karla varð óvænt nokkuð spennandi þó úrslitaröðin hafi að lokum verið nokkurn veginn eftir bókinni. Norðmaðurinn og Evrópumethafinn Karsten Warholm leiddi hlaupið frá byrjun og virtist ætla að sigra nokkuð þægilega. Á lokametrunum stífnaði hann talsvert upp og þurfti að hafa nokkuð fyrir því að halda fyrsta sætinu frá Belganum Julien Watrin sem saumaði hart að honum. Warholm kláraði á tímanum 45,35 sekúndum en Watrin á 45,44 og bætti eigið landsmet sem hann setti í undanúrslitunum á föstudaginn.

Í kvennahlaupinu höfðu Hollendingar tvöfaldan sigur. Femke Bol hafði lítið fyrir því að sigra hlaupið en keppnin um silfrið stóð á milli þeirra Lieke Klaver og Önnu Kiełbasińska frá Póllandi. Þær höfðu áður tekist á í fyrri undanúrslitariðlinum þar sem Klaver hafði sigur og var niðurstaðan sú sama í úrslitahlaupinu. Sigurtími Bol var 49,85 sekúndur, hálfri sekúndu frá eigin heimsmeti. Klaver kláraði á 50,57 sekúndum og Kiełbasińska tók þriðja sætið á 51,25 sekúndum.

Það er lítið sem kom á óvart við sigur Bol, Warholm og Muir í þeirra greinum.

Ceccarelli sigurvegari á sínu fyrsta stórmóti

Þá var loks komið að úrslitahlaupinu í 60 metrum karla. Fyrr um kvöldið höfðu verið hlaupnir þrír undanúrslitariðlar þar sem Ítalirnir tveir Samuele Ceccarelli og Lament Marcell Jacobs náðu bestu tímunum, 6,47 og 6,52 sekúndur. Tími Ceccarelli var jafnframt besti tími ársins í Evrópu en Bretinn Reece Prescott hafði fyrr á árinu hlaupið á 6,49. Prescott átti svo þriðja besta tíma undanúrslitanna, 6,56 sekúndur og virtist alls ekki nógu sannfærandi til að geta átt séns í Ceccarelli í úrslitahlaupinu en þeir tveir hlupu í sama undanúrslitariðlinum. Jacobs sigraði sinn undanúrslitariðil örugglega en var farinn að haltra um leið og hann kom yfir marklínuna og kenndi sér augljóslega meins aftan í öðru lærinu. Á þeim tímapunkti var alls ekki svo víst að hann yrði í standi til að hlaupa úrslitahlaup.

Ólympíumeistarinn Jacobs var þó mættur til leiks í úrslitahlaupið, greinilega staðráðinn í að láta eymslin ekki koma í veg fyrir titilvörn sína. Hann þurfti þó að lúta í lægra haldi fyrir Ceccarelli sem stóð uppi sem sigurvegari á sínu fyrsta alþjóðlega stórmóti og kláraði hlaupið á 6,48 sekúndum. Lærið á Jacobs hélt út hlaupið og skilaði honum silfurverðlaunum á 6,50. Svíinn Henrik Larsson kom svo á óvart og hirti bronsið á nýju sænsku meti, 6,53 sekúndur. Prescott, sem kom til Istanbúl með besta tíma Evrópumanns á árinu, byrjaði hlaupið hægt og illa og náði sér aldrei á strik eftir það. Hann kláraði áttundi á 6,64 sekúndum.

Jacobs, Ceccarelli og Larsson með medalíurnar.