EM í Istanbúl: Thiam setur nýtt heimsmet í fimmtarþraut

Föstudagskvöld Evrópumeistaramótsins bauð upp á frábæra skemmtun á heimsmælikvarða. Hæst bar upp úr lokapunktur fimmtarþrautarinnar þar sem tvær konur náðu árangri yfir heimsmeti Nataliya Dobrynska sem hefur staðið síðan 2012. Metið setti hún á HM innanhúss sem einmitt fór fram í Istanbúl það árið. Þrír bestu árangrar sögunnar í fimmtarþraut kvenna hafa því komið frá Ataköy frjálsíþróttahöllinni í Istanbúl.

Í fyrri grein hér á Silfrinu höfðum við rakið úrslit fyrstu þriggja greinanna og þegar við skildum við var Nafissatou Thiam með 144 stiga forskot á Adriönnu Sułek og Noor Vidts átti þriðja sætið, 62 stigum á eftir Sułek. Í gærkvöldi kepptu þær svo í síðustu tveimur greinunum, þ.e. langstökki og 800 m hlaupi. Langstökkskeppnin var jöfn og spennandi. Sułek opnaði keppnina með 6,52 metra löngu stökki og var með forystu eftir fyrstu umferðina. Fyrir mótið átti Sułek best 6,56 m og hún því alveg við sitt besta en Thiam, sem á best 6,79 m stökk aðeins 6,36 í fyrstu umferðinni. Sułek lengdi sig ekki í annarri tilraun en það gerði hins vegar Thiam, en náði þó aðeins að jafna árangur Sułek frá fyrstu umferðinni, 6,52 metra. Í þriðju og síðustu umferðinni hitti Sułek vel á plankann og sveif 6,62 metra. Thiam svaraði því og stökk 6,59 m í sínu þriðja stökki en var þó rúmum 20 cm fyrir aftan plankann. Það fór því þannig að Sułek vann langstökkskeppnina en minnkaði forskot Thiam þó ekki um nema 10 stig. Vidts var þriðja í langstökkinu með 6,55 metra.

Það var því ljóst að fyrst Thiam náði ekki að auka forystu sína í langstökkinu gæti Sułek, með frábæru 800 metra hlaupi, stolið sigrinum af Thiam. Ef báðar myndu hlaupa á sínum persónulegu metum stæði Thiam enn uppi sem sigurvegari en aðeins með þriggja stiga mun. Sułek lagði því allt í sölurnar og keyrði sig algjörlega út. Hún kom í mark súrari en sítróna í saltsýrubaði og stífari en spýtukall í spelkum en það skilaði henni tímanum 2:07,17 mínútur (1006 stig) og persónulegri bætingu um næstum tvær og hálfa sekúndu. Þar með kláraði hún þrautina með 5014 stig, einu stigi meira en áðurnefnt heimsmet Dobrynsku frá 2012. En Thiam lagði sig ekki síður fram og bætti bætingu Sułek um tvær og hálfa sekúndur í viðbót, þ.e.a.s. bætti eigið persónulega met um 5 sekúndur, hljóp á 2:13,60 mínútum, og kláraði því þrautina með 5055 stig og nýtt heimsmet leit dagsins ljós. Í þriðja sæti var Noor Vidts með 4823 stig.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að Thiam hafi sett nýtt heimsmet og bætt sinn fyrra persónulega besta árangur um meira en 150 stig en samt sem áður aðeins bætt sig í tveimur greinum, þ.e. kúlu og 800 m. Á sama tíma bætti Sułek sig í fjórum greinum af fimm og jafnaði sitt persónulega met í einni.

Thiam og Sulek eiga núna besta og annan besta árangur allra tíma í fimmtarþraut innanhúss. Það verður spennandi að sjá þær berjast í sjöþrautinni á HM í Búdapest.

Í viðtali eftir þrautina sagði Thiam að hún haft augastað á heimsmetinu fyrir mótið og að hún hafi haft trú á því að hún gæti náð því. Það væri góðs viti að hún hafi getað náð þessum árangri þrátt fyrir að allar greinarnar hafi ekki gengið fullkomlega upp. “Stökkin, langstökkið og hástökkið, hefðu getað verið betri svo ég get enn þá bætt mig. Það hvetur mig til að halda áfram”.

Þrátt fyrir að hafa bætt gamla heimsmetið og bætt sig eða jafnað í öllum greinum var Sułek ekki fullkomlega sátt eftir þrautina. “Ég bjóst ekki við svona harðri baráttu við Nafissatou. Ég er mjög metnaðarfull og mun halda áfram að leggja hart að mér. Ég vona að í framtíðinni verði ég sú besta í heiminum.”

Í töflunni hér að neðan má sjá þróun heimsmetsins í fimmtarþraut kvenna innanhúss. Aðeins fimm konur hafa átt heimsmetið (ef frá eru taldar þær tvær sem féllu á lyfjaprófi og metin felld úr gildi). Hér lítum við svo á að Sułek hafi átt heimsmetið í þær 6 sekúndur sem liðu frá því hún kom í mark í 800 m hlaupinu þar til Thiam kom í mark.

NafnÞjóðerniStigÁrangur í greinum (60 gr, hást, kúla, langst, 800 m)Ár
Sabine JohnA-Þýskaland47688.16 s, 1.74 m, 14.76 m, 6.61 m, 2:15.631985
Irine BelovaRússland49918.22 s, 1.93 m, 13.25 m, 6.67 m, 2:10.261992
Nataliya DobrynskaÚkraína50138.38 s, 1.84 m, 16.51 m, 6.57 m, 2:11.152012
Adrianna SułekPólland50148.21 s, 1.89 m, 13.89 m, 6.62 m, 2:07.172023
Nafissatou ThiamBelgía50558.23 s, 1.92 m, 15.54 m, 6.59 m, 2:13.602023

Pichardo með annað landsmet og Kambundji sigrar á mótsmeti

Af öðrum helstu úrslitum á EM er það að frétta að í skemmtilegri kúluvarpskeppni karla stóð Ítalinn Zane Weir uppi sem sigurvegari með nýju ítölsku meti og besta árangri í Evrópu í ár, 22,06 m. Tékkinn Tomáš Stanek og Roman Kokoshko frá Úkraínu hirtu silfur og brons með 21,90 m og 21,84 m köstum.

Pedro Pichardo var í algjörum sérflokki í þrístökkinu og stökk meira en metra lengra en þeir Nikolaos Andrikopoulus og Max Heß sem tóku annað og þriðja sætið með einum sentímetra á milli sín. Pichardo stökk 17,60 m og bætti þar með eigið portúgalskt met sem hann setti undankeppninni.

Jakob Ingebrigtsen varði titil sinn í 1500 m hlaupi og dugði lítið annað en mótsmet til þess, 3:33,95 mínútur. Neil Gourly háði hetjulega baráttu um gullið en þurfti að lúta í lægra haldi og kláraði annar á 3:34,23. Frakkinn Azeddine Habz fékk brons.

Jakob Ingebrigtsen varði titilinn en Gourley kemur án efa í hefndarhug til Búdapest næsta sumar.

Auriel Dongmo hafði álíka yfirburði í kúluvarpi kvenna og landi hennar Pichardo hafði í þrístökkinu. Hún tók forystu strax í fyrstu umferð en lengsta kastið kom í þriðju umferð, 19,76 m. Í öðru sæti var Þjóðverjinn Sara Gambetta með 18,83 m og Fanny Roos frá Svíþjóð tók bronsið með 18,42 m.

Lokagrein föstudagskvöldsins var svo 60 m hlaup kvenna. Mujinga Kambundji fylgdi eftir góðu undanúrslitahlaupi og sigraði nokkuð örugglega á 7,00 sekúndum sem er jöfnum á mótsmetinu. Ewa Swoboda náði silfrinu á 7,09 s, þremur hundraðshlutum á undan Daryll Neita sem hafnaði í þriðja sæti.

Mujinga Kambundji er nú bæði ríkjandi heims- og Evrópumeistari í 60 metra hlaupi.