EM í Istanbúl: Samantekt um sjöþraut karla

Fjórtán fjölþrautarkappar voru skráðir til leiks í sjöþraut karla á EM í Istanbúl. Fyrir fram var búist við harðri keppni milli Frakkans Kevin Mayer og Svisslendingsins Simon Ehammer. Mikið vatn átti þó eftir að renna til sjávar.

60 metra hlaup

Bestum tíma í 60 metra hlaupinu náði Ehammer, hann rann skeiðið á 6.80 sek sem var jöfnun á besta tíma hans í ár. Annar varð Þjóðverjinn Manuel Eitel á 6.81 sek sem var líka besti tími hans á árinu, þriðji var Mayer á 6.85 sek sem er jöfnun á hans besta. Staðan eftir fyrstu grein var því Ehammer – Mayer – Eitel.

Ehammer kemur fyrstu í mark í 60 metra hlaupinu

Langstökk

Það fór heldur betur að færast fjör í keppnina í langstökkinu. Lengst stökk Eistinn Hans-Christian Hausenberg, hann gerði sér lítið fyrir og stökk 7.81 metra sem er besti árangur hans á árinu og fékk 1012 stig fyrir það. Næst lengsta stökkið átti Norðmaðurinn Sander Skotheim, hann stökk 7.60 metra. Kevin Mayer átti fínt langstökk og stökk 7.41 metra.

Stærstu tíðindin í langstökkinu voru hins vegar þau að Ehammer gerði öll sín stökk ógild og fékk þar að leiðandi núll stig fyrir greinina. Ehammer er frábær langstökkvari og reiknaði eflaust með því að auka forskot sitt á Mayer eftir langstökkið en það gerðist ekki og útlitið var orðið nokkuð gott fyrir Mayer.

Hausenberg leiddi þrautina eftir langstökkið, Mayer var annar og Skotheim þriðji.

Kúluvarp

Ítalinn Dario Dester og Ehammer mættu ekki til leiks í kúluvarpið og eftir voru því tólf keppendur.

Frakkinn hrausti Makeson Gletty varpaði kúlunni lengst af öllum, 16.07 metra sem er bæting hjá honum. Mayer átti flott kúluvarp og var næstur á eftir Gletty með kast upp á 15.81 metra. Þriðji var Eitel með bætingu en hann kastaði 15.27 metra.

Mayer og Hausenberg höfðu sætaskipti eftir kúluna og Eitel stökk upp í þriðja sætið.

Hástökk

Hástökkið var algjörlega eign Skotheim, hann gerði sér lítið fyrir og stökk 2.19 metra sem er samt sem áður ekki bæting hjá honum. Hann á best 2.20 og var grátlega nálægt því að stökkva 2.22 metra í Istanbúl. Fyrir þetta frábæra hástökk sem er einnig besti árangur á EM innanhúss fékk Skotheim 982 stig.

Skotheim er frábær hástökkvari og var nálægt því að fara 2.22 metra

Eistinn Risto Lillemets jafnaði sinn besta árangur í hástökki með 2.07 metra og hífði sig upp um nokkur sæti en hann hafði haft frekar hægt um sig í fyrstu þremur greinunum.

Eitel bætti sig líka með því að stökkva yfir 2.01 metra en Mayer var frekar ósáttur með sitt framlag upp á 1.98 metra, samt sem áður ekkert hræðilegt fyrir Mayer sem hefur verið frekar ósöðugur í hástökki síðustu ár.

Maicel Uibo frá Eistalandi er frábær hástökkvari og vinnur sig yfirleitt upp um nokkur sæti í þessari grein en hann mætti hins vegar ekki til leiks og voru það því ellefu sem að luku fyrri deginum.

Staðan eftir fyrri dag var sú að Skotheim leiddi þrautina með 3541 stig, Mayer var annar með 3474 stig og Eitel þriðji með 3424 stig.

60 metra grindarhlaup

Kevin Mayer hóf seinni daginn á því að hlaupa sinn besta tíma á árinu í 60 metra grind. Mayer hljóp á 7.76 sek sem gaf honum 1043 stig. Spánverjinn Jorge Urena var annar á 7.83 sek og Hausenberg þriðji á 8.00 sek. Jafnir í fjórða voru þeir Skotheim og Lillemets á 8.05 sek.

Eftir grindina höfðu Mayer og Skotheim sætaskipti sem og Hausenberg og Eitel.

Stangarstökk

Það er oft talað um það meðal þrautarmanna að menn geti andað léttar þegar að búið er að fara yfir eina hæð í stangarstökki. Gletty og Hausenberg lentu í brasi með sína byrjunarhæð og felldu þeir hana báðir þrisvar og fengu þar að leiðandi núll stig fyrir vikið. Hausenberg er góður stangarstökkvari en gekk ekki heill til skógar þegar komið var í stöngina, Gletty var 11 stigum í plús miðað við sína bestu þraut fyrir stöngina og sat þæginlega í 5. sæti og hefði getað blandað sér í baráttu um verðlaun. Svekkjandi fyrir þá tvo.

Kevin Mayer er frábær stangarstökkvari og sýni það með því að stökkva 5.30 metra. Lilletmets jafnaði sinn besta árangur með því að stökkva 5.10 metra og Skotheim bætti sig með því að stökkva 5 metra.

Mayer var nálægt því að fara 5.40 metra

Staðan fyrir lokagreinina var Mayer – Skotheim – Eitel – Lillemets.

1000 metra hlaup

Fyrir síðstu greinina var Mayer með 101 stig á Skotheim og þurfti Skotheim að vinna Mayer með 10.5 sek. Það gerðist ekki en Skotheim reyndi og fær hrós fyrir það. Hann hljóp á 2:37.82 en Mayer hljóp á 2:44.20 og tryggði sér Evrópumeistaratitilinn. Lillemets var 22 stigum á eftir Eitel fyrir 1000 metra hlaupið. Lillemets hljóp 2:39.50 á meðan að Eitel hljóp á 2:44.45, Lillemets stökk því upp í þriðja sætið og hirti bronsið af Eitel.

Lokastaðan í þrautinni

Kevin Mayer sigraði eftir góða keppni við Sander Skotheim. Skotheim setti norskt met í sjöþraut og á eftir að láta finna fyrir sér á næstu árum. Risto Lillemets tók óvænt brons fyrir Eista sem bjuggust kannski frekar við verðlaunum frá Uibo eða Hausenberg. Manuel Eitel bætti sinn besta árangur og er eflaust smá súr með fjórða sætið.

Verðlaunahafarnir sáttir eftir keppnina

Það voru 8 sem fengu stig fyrir allar greinar og 10 sem kláruðu þrautina. Á síðasta EM voru teknir inn 12 keppendur en þeim var fjölgað núna upp í 14, undirritaður skilur ekki afhverju þeir eru ekki a.m.k. 16 því það eru jú 8 brautir og ekkert mál að fylla tvo riðla fyrir spretthlaupin. En nóg af tuði, frábær þrautarkeppni og það verður gaman að sjá flesta þessa kappa á HM í Búdapest nú í sumar.