Ísland átti einn fulltrúa á bandaríska háskólameistaramótinu sem fram fór í borginni Albuquerque í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum um nýliðna helgi. Erna Sóley Gunnarsdóttir, sem keppir fyrir Rice háskólann í Houston í Texas, keppti þar í kúluvarpi. Erna hefur verið í miklum bætingaham í vetur en hún hefur bætt eigið Íslandsmet í þrígang, fyrst úr 17,29 m frá síðasta sumri í 17,34 m, þá 17,70 m og loks 17,92 m. Erna kom til leiks á háskólameistaramótið með áttunda besta árangurinn af 16 keppendum. Besta árangurinn átti Hollendingurinn og bronsverðlaunahafinn frá Evrópumeistaramótinu í München síðasta sumar, Jorinde Van Klinken en hún hefur kastað lengst 19,57 m í ár.
Svo fór að Erna lauk keppni í sjöunda sæti með 17,59 m kasti í fjórðu umferð, sæti á eftir Van Klinken sem náði sér ekki á strik og kastaði ekki nema 17,77 m. Það var Adelaide Aquilla frá Ohio ríkisháskólanum sem vann keppnina með nýju persónulegu meti, 19,28 m. Erna Sóley er á sínu síðasta ári í Rice háskólanum en haldi hún bætingunum áfram gæti hún vel kastað sig upp í verðlaunasæti á hennar síðasta hásḱólameistaramóti næsta sumar.
