Nú er biðin loks á enda! Demantamótaröðin hefst að nýju í kvöld þegar margar af stærstu stjörnum frjálsíþróttaheimsins mæta á Quatar Sports Club leikvanginn í Doha. Keppendalistinn er óvenju sterkur miðað við mót á þessum tíma árs. Á listanum eru til að mynda allir verðlaunahafarnir frá því á HM í fyrra í spjótkasti karla, stangarstökki kvenna og þrístökki karla.
Kringlukastararnir Daniel Ståhl og Simon Pettersson munu mæta í kasthringinn í kvöld. Þetta verður fyrsta mót Svíanna eftir að leiðir þeirra skildu við Véstein Hafsteinsson og það verður því afar áhugavert á sjá hvernig þeim mun vegna. Þeir munu fá verðuga keppni frá heimsmeistaranum Kristjan Ceh sem hefur kastað 68,30m í ár og Íslandsvininum Sam Mattis sem hefur kastað 67,49m.
Stjörnum prýdd spjótkastskeppni
Keppendalistinn í spjótkasi karla er gífurlega sterukur. Tvöfaldi heimsmeistarinn Anderson Peters mætir þar Ólympíumeistaranum Neeraj Chopra. Bronsverðlaunahafinn frá Oregon, Jakub Vadlejh, mætir einnig til leiks ásamt Evrópumeistaranum Julian Weber, Ólympíumeistaranum frá London, Kwhorn Walcott, og heimsmeistaranum 2015, Julius Weber. Vadlejh á lengsta kastið í heiminum það sem af er ári, 88,38m, en Peters hefur lengst kastað 81,27m. Hinir eru að fara keppa á sínu fyrsta móti í ár.
Stangarstökkskeppni kvenna verður ekki síður spennandi. Heims- og Ólympíumeistarinn Katie Moon mætir þeim Sandi Morris, Ninu Kennedy, Holly Bradshaw, Wilmu Murto og Tinu Sutej sem allar hafa unnið til verðlauna á stórmótum. Engin þeirra hefur stokkið utanhúss í ár og það getur því allt gerst.
Í þrístökki karla munu verðlaunahafarnir frá Tókýó og Oregon etja kappi. Pedro Pichardo og Fabrice Zango opna tímabilið í kvöld en Zhu Yaming hefur lengst stokkið 16,88m það sem af er ári. Gamli refurinn Christian Taylor er einnig á keppendalistanum ásamt heimsmeistaranum innanhúss, Laxaro Martinez.
Spennandi spretthlaup
Heimsmeistararnir í 100m og 400m hlaupum munu mætast á miðri leið og etja kappi í 200m hlaupi ásamt Ólympíumeistaranum í greininni. Fred Kerley hefur sýnt gott form í upphafi árs en hann hefur hlaupið 200m á 20,32s og 400m á 44,65s – bæði hlaup virtust nokkuð þægileg. Michael Norman opnaði tímabilið sitt vel þegar hann hljóp 100m á 10,02s (+3,0). De Grasse hljóp síðan 200m á 20,41 í síðustu viku. Það má því búast við hörkukeppni en Kenny Bednarek gæti einnig blandað sér í baráttuna um sigurinn í kvöld.
Í 100m hlaupi kvenna mæta þær Shericka Jackson, Dina-Asher Smith og Sha’Carri Richardson á startlínuna. Þær eru allar í góðu formi og því má búast við hröðum tímum í kvöld. Jackson hefur hlaupið á 10,82s í ár og Richardson á 10,57s (+4,1). Asher-Smith hefur ekki hlaupið utanhúss í ár en hún sló breska metið í 60m á innanhússtímabilinu þegar hún hljóp á 7,03s. Aðrar líklegar til afreka í hlaupinu eru Abby Steiner, Zoe Hobbs og Twanisha Terry.
Barshim á heimavelli
Heims- og Ólympíumeistarinn í hástökki, Mutaz Barshim, mun án vera vel studdur á heimavelli. Hann mun fá góða keppni frá JuVaughn Harrison sem hefur stokkið 2,33m í ár og heimsmeistaranum innanhúss, Woo Sanghyeok, sem vann Barshim á þessu sama móti í fyrra.
Einn af hápunktum kvöldsins verður að öllum líkindum 3000m hlaup karla. Heimsmethafinn innanhúss, Lamecha Girma, mætir Ólympíumeistaranum í 10.000m, Selemon Barega, og Timothy Cheruiyot, fyrrverandi heimsmeistara í 1500m. Heims- og Ólympíumeistarinn í 3000m hindrunarhlaupi, Soufiane El Bakkali, mætir einnig til leiks ásamt Berihu Aregawi, Getnet Wale og Telahun Haile Bekele.
Af öðrum keppendum á mótinu má helst nefna Faith Kipyegon í 1500m kvenna, Rai Benjamin í 400m grindahlaupi karla, Jasmine Camacho-Quinn í 100m grindahlaupi kvenna og Marileidy Paulino í 400m hlaupi kvenna.
Hægt verður að horfa á beint streymi frá mótinu á Youtube. Streymið hefst kl. 16:00 á íslenskum tíma.