Čeh og Richardsson byrja tímabilið af krafti – Umfjöllun um Demantamótið í Doha

Sumartímabilið í frjálsum íþróttum fór af stað með látum á fyrsta móti demantamótaraðarinnar í Doha á föstudagskvöldið. Þó margt af besta frjálsiþróttafólki heims sé fyrir löngu byrjað að keppa er þetta fyrsta mótið þar sem almennilega er hægt að sjá hvernig þau koma undan vetri. Eins og vanalega á fyrsta demantamóti hvers sumars var heill haugur af heims- og Ólympíumeisturum mættur til leiks.

Meðal áhugaverðustu greina var kringlukast karla, þar sem Ólympíumeistarinn frá 2021 Daniel Ståhl mætti heimsmeistaranum Kristjan Čeh frá Slóveníu. Eftir gjöful ár frá 2017-2021 náði hann Ståhl sér ekki á strik í fyrra og vann ekki til verðlauna, hvorki á heims- né Evrópumeistaramóti. Það gerði Čeh hins vegar en hann vann gull á HM og silfur á EM. Það var því áhugavert að sjá hvort Ståhl gæti snúið við þróuninni strax á fyrsta móti í ár. Það fór þó svo að Čeh sigraði keppnina í Doha með mótsmeti, 70,89 metrum strax í fyrsta kasti. Ståhl kom annar með 67,14 metra og Bandaríkjamaðurinn Sam Mattis þriðji með 64,69. Tímabilið byrjar því vel hjá Čeh en spennandi verður að sjá baráttu hans við Litháan Nykolas Alekna á HM seinna í sumar. Alekna á lengsta kast ársins. 71,00 metra.

Timabilið byrjar vel hjá Kristjan Čeh

Margir biðu spenntir eftir 100 metra hlaupi kvenna, þar sem heimsmeistarinn í 200 metra hlaupi, Shericka Jackson, mætti Dinu Asher-Smith, Sha‘Carri Richardsson og fleiri stórlöxum. Asher-Smith átti frábært innanhústímabil á 60 metra brautinni en Richardsson, sem átti nokkuð brösulegt tímabil í fyrra hefur byrjað sumarið af miklum krafti og hljóp fyrr í vor 100 metra á 10,57 sekúndum með +4,1 m/s vind í bakið. Richardsson fylgdi þessari sterku byrjun eftir í Doha og kom í mark á besta tíma ársins og nýju mótsmeti 10,76 sekúndum. Jackson og Asher-Smith fylgdu henni fast á hæla, báðar á undir 11 sekúndum, Jackson á 10,85 og Asher-Smith á 10,98. Í myndbandinu hér að neðan má sjá hlaupið. Fyrra mótsmet átti Bandaríkjakonan Tori Bowie en í síðustu viku var tilkynnt um sviplegt andlát hennar. Bowie var aðeins 32 ára að aldri en ekkert hefur verið gefið upp um dánarorsök hennar.

Rétt eins og í kringlukastinu mættust í spjótkasti karla ríkjandi heims- og Ólympíumeistarar nema hér var það Ólympíumeistarinn Neeraj Chopra sem bar sigur úr býtum. Chopra kastaði lengst allra 88,67 metra, sem er lengsta kast ársins. Heimsmeistarinn Anderson Peters frá Grenada varð þriðji með 85,88 metra kasti en á milli þeirra var Tékkinn Jakub Vadlejch með 88,63 metra.

Í stangarstökki kvenna stökk heims- og Ólympíumeistarinn Katie Moon hæst allra, 4,81 metra í skemmtilegri keppni. Tina Sutej varð önnur með jöfnun á eigin slóvanska landsmeti, 4,76 metrar og Sandi Morris frá Bandaríkjunum þriðja með 4,71 metra.

Af úrslitum í öðrum greinum má að Portúgalinn Pedro Pichardo sigraði þrístök karla með 17,91 metra stökki (+2,1 m/s) en þrír stukku 17,80 metra eða lengra. Hugues Fabrice Zango frá Búrúndí stökk 17,81 metra sem telst þó lengsta stökk ársins þar sem meðvindurinn var undir löglegum mörkum.

Í 1500 metra hlaupi kvenna sigraði Faith Kipyegon á besta tíma ársins, 3:58,57 mínútum en hún er líkleg til að vinna sinn þriðja heimsmeistaratitil seinna í sumar. Heimamaðurinn Mutaz Essa Barshim náði sér ekki á strik í hástökkinu en stökk aðeins 2,24 metra sem dugði í þriðja sæti. Það var Bandaríkjamaðurinn JuVaughn Harrison sem stökk hæst, 2,32 metra.

Öll úrslit má sjá hér og í þessum spilunarlista má sjá myndbönd af því helsta sem stóð upp úr.