Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Crouser bætti heimsmetið í kúluvarpi

Bandaríkjamaðurinn Ryan Crouser bætti í kvöld heimsmetið í kúluvarpi karla þegar hann kastaði 23,56m á USATF Los Angeles Grand Prix mótinu. Bætti hann þar með tæplega ársgamalt eigið met um 19cm.

Crouser átti frábæra kastseríu í kvöld. Hann kastaði 23,23m strax í fyrsta kasti og lengdi sig í 23,31m í því öðru. Þriðja kastið mældist 22,94m og heimsmetskastið kom síðan í fjórðu umferð. Fimmta kastið reyndist 22,80m og það sjötta 22,86m. Þetta er frábær árangur svo snemma á tímabilinu og gaman verður að fylgjast með kappanum það sem eftir er af tímabilinu.

Mótið í Los Angeles var afar sterkt og náðist frábær árangur í mörgum greinum. Bandaríkjakonan Maggie Ewen vann kúluvarp kvenna með kasti upp á 20,45m. Þetta er stórbæting hjá Ewen sem hafði lengst kastað 19,79m fyrir mótið. Íslandsvinurinn Chase Ealy varð önnur með 19,98m og Danniel Thomas-Dodd þriðja með 19,77m.

Jasmine Camacho-Quinn vann 100m grindahlaup kvenna á tímanum 12,31s (-0,2). Hún er greinilega í hörkuformi en hún hljóp á 12,17s (+3,5) fyrir sex dögum síðan. Marileidy Paulino sigraði í 400m hlaupi kvenna á tímanum 48,98s en Salwa Eid Naser varð önnur á 50,27s. Naser er að koma til baka eftir að hafa verið í tveggja ára banni frá keppni vegna brots á reglum í kringum lyfjapróf. Fyrsta hlaup hennar eftir bannið var í síðustu viku þar sem hún hljóp á tímanum 52,24s. Sean Bailey vann 400m hlaup karla á 44,43s en Kirani James kom þar skammt á eftir á tímanum 44,50s.

Ackeem Blake vann 100m hlaup karla á tímanum 9,89s (+1,0). Cravont Charleston varð annar á 9,91s og Christian Coleman þriðji á 9,91s. Morolake Akinosun vann 100m hlaup kvenna á 10,97s (+0,2). Hvorki Marie-Josée Ta Lou né Sha’Carri Richardsson, sem höfðu náð bestu tímunum í undanúrslitum hlaupsins, mættu til leiks í úrslitahlaupið. Richardson hljóp á 10,90s (-0,8) í undanúrslitunum og Ta Lou á 10,88s (+1,3).

Timothy Cheruiyot byrjar tímabilið vel en hann sigraði í 1500m hlaupi karla á tímanum 3:31,47. Diribe Welteji vann 1500m hlaup kvenna á tímanum 3:57,84. Mondo Duplantis gerði vel á sínu fyrsta móti á tímabilinu en hann vann stangarstökkið með 5,91m. Sam Kendricks fór yfir sömu hæð en þurfti til þess fleiri tilraunir en Duplantis. Þá vann Anderson Peters spjótkast karla með 83,16m en hann hefur lengst kastað 85,88m á árinu.

Öll úrslit mótsins má nálgast hér.

Exit mobile version