Daníel Ingi Norðurlandameistari

Daníel Ingi Egilsson varð í dag Norðurlandameistari í þrístökki karla þegar hann hrósaði sigri á Norðurlandamótinu sem fer fram í Kaupmannahöfn um helgina. Daníel stökk lengst 15,98m (+1,2) sem er bæting á hans besta árangri utanhúss um 68cm. Íslandsmethafinn Vilhjálmur Einarsson er eini Íslendingurinn sem hefur stokkið lengra en met hans frá árinu 1960 er 16,70m. Daninn Dennis Bakari Mägi varð annar í keppninni með stökki upp á 15,19 (+2,4) og landi hans, Torúr Mortensen, þriðji með 14,81 (0,0). Daníel átti þrjú gild stökk í keppninni og kom það lengsta í fimmtu umferð. Hin tvö mældust 15,18 (0,0) og 15,53 (+1,9).

Hilmar og Kolbeinn með silfur

Daníel var ekki eini Íslendingurinn sem vann til verðlauna á mótinu í dag en sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónssson og spretthlauparinn Kolbeinn Höður Gunnarsson unnu báðir til silfurverðlauna í sínum greinum. Kolbeinn hljóp afar vel í 100m hlaupinu og kom í mark á tímanum 10,29s (+2,4) og var 20 hundraðshlutum á eftir Norðurlandameistaranum Henrik Larsson frá Svíþjóð. Tími Kolbeins er langt undir Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar frá árinu 2017 (10,51s) en því miður var meðvindur í hlaupinu of mikill til þess að hann gildi sem met. Norðmaðurinn Jacob Vaula varð þriðji í hlaupinu á tímanum 10,40s.

Hilmar Örn varð sem áður segir í öðru sæti í sleggjukasti karla. Lengsta kast Hilmars mældist 73,28m og kom það í þriðju umferð. Hilmar leiddi keppnina eftir þriðju umferðina allt þar til Finninn Aaron Kangas kastaði 73,37m í síðustu umferðinni. Landi Kangas, Tuomas Seppänen, varð þriðji með kasti upp á 73,16m

Hafdís Sigurðardóttir hafnaði í 4. sæti í langstökki kvenna en hennar lengsta stökk mældist 6,22m (+1,0). Svíinn Kaiza Karlén varð Norðulandameistari með stökki upp á 6,39m (+1,1). Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafnaði einnig í fjórða sæti í 100m hlaupi kvenna en hún hljóp á 11,73 (+0,8). Lotta Kemppinen frá Finnlandi sigraði í hlaupinu á tímanum 11,47s. Hlynur Andrésson hljóp 5000m hlaup en var því miður dæmdur úr leik fyrir að stíga á línu.

Af öðrum úrslitum dagsins má nefna að Norðmaðurnn Håvard Bentdal Ingvaldsen vann 400m karla á tímanum 46,32s og landa hans, Astri Ayo Lakkeri Ertzgaard vann 400m hlaup kvenna á tímanum 53,09s. Emil Danielsson frá Svíþjóð varð Norðurlandameistari í 1500m hlaupi karla á tímanum 3:39,01 og landa hans Vanessa Kamga vann kringlukast kvenna með 57,39m.

Norðurlandameistarar í 5000m urðu Danirnir Mikael Johnsen (13:50,80) og Nanna Bové (15:53,20). Svíinn Wictor Petersson varð Norðurlandameistari í kúluvarpi karla með kasti upp á 19,74m og Anni-Linnea Alanen vann spjótkast kvenna með 54,42m. Þá vann Andrea Rooth frá Noregi 400m grindahlaup kvenna á tímanum 58,05s og Tuomas Lethonen 400m grindahlaup karla á 50,92s.

Hér má sjá öll úrslit dagsins. Mótið heldur áfram á morgun en þá munu Irma Gunnarsdóttir keppa í langstökki, Guðni Valur Guðnason og Mímir Sigurðsson í kringlukasti, Dagbjartur Daði Jónsson og Sindri Hrafn Guðmundsson í spjótkasti, Daníel Ingi Egilsson í þrístökki, Vigdís Jónsdóttir í sleggjukasti og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson í 200m. Hægt verður að horfa á mótið í beinu streymi hér.