Demantamótaröðin heldur áfram í kvöld

Annað Demantamót ársins er á dagskrá í kvöld og er nú förinni heitið til Rabat í Marokkó. Eins og við er að búast er keppendalistinn stjörnum prýddur og verða mörg einvígin háð á leikvanginum sem nefndur er eftir Moulay Abdellah prins.

Stálin stinn í kringlunni

Kringlukastskeppni karla verður án efa einn af hápunktum kvöldsins en þar munu Kristjan Ceh, Daniel Ståhl, Andrius Gudzius, Simon Petterson og Sam Mattis etja kappi. Á fyrsta Demantamóti ársins sigraði Ceh en Ståhl varð annar og Mattis þriðji. Hver ætli standi uppi sem sigurvegari í kvöld?

Spennandi 100m hlaup

Mikil spenna er fyrir 100m hlaupi karla. Því miður hefur Ólympíumeistarinn Marcell Jacobs hætt við keppni á mótinu vegna meiðsla. Við þurfum því enn að bíða eftir því að hann mæti heimsmeistaranum Fred Kerley. Kerley mun samt sem áður fá hörkukeppni í kvöld frá þeim Trayvon Bromell, Ferdinand Omanyala, Akani Simbine, Letsile Tebogo og Yohan Blake. Omanyala hefur hlaupið þeirra hraðast í ár (9,84s) en Kerley næsthraðast (9,88s).

Heimsmeistarinn mætir Ólympíumeistaranum

Í 110m grindahlaupi karla verður einvígi á milli Ólympíumeistarans Hansle Parchment og heimsmeistarans Grant Holloway. Holloway hefur byrjað tímabilið af krafti og hefur hlaupið á 13,03s í ár. Parchement hefur ekki byrjað eins vel en hans besti tími í ár er 13,60s. Rasheed Broadbell á næstbesta tímann í ár (13,10s) og getur blandað sér í baráttuna um sigurinn.

Öll augu á Ingebrigsten

Jakob Ingebrigsten mun hlaupa sitt fyrsta hlaup á tímabilinu í kvöld. Hann er sigurstranglegastur í 1500m hlaupinu en hann mun fá góða keppni frá þeim Yared Nuguse, Oliver Hoare, Abel Kipsang og Marion Garcia.

Dalilah Muhammad mun einnig þreyta frumraun sína á tímabilinu í 400m grindahlaupi kvenna. Þar mætir hún Önnu Ryzhykovu, Shamier Little og Clayton Rushell.

Meðal annarra keppenda á mótinu má nefna heimamanninn Soufiane El Bakkali í 3000m hindrunarhlaupi, Yaroslava Mahuchikh í hástökki, Shericka Jackson í 200m, Gudaf Tsegay í 1500m, Mary Moraa í 800m, Steven Gardiner í 400m og Auriol Dongmo í kúluvarpi.

Hér má náglast keppendalista mótsins. Mótinu verður streymt beint á Youtube og hefst útsending kl. 18:00.