Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Guðni og Sindri Norðurlandameistarar, Irma og Kolbeinn slógu Íslandsmet

Stókostlegur árangur náðist á síðari degi Norðurlandamótsins í Kaupmannahöfn í dag. Tveir Norðurlandameistaratitlar komu í hús auk tvennra silfurverðlauna og tvennra bronsverðlauna. Þá slógu Irma Gunnarsdóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson Íslandsmet í sínum greinum.

Guðni Valur og Sindri Hrafn nældu í gull

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason varð nokkuð örugglega Norðulandameistari í dag en hans lengsta kast mældist 63,41m. Sigurkastið kom strax í fyrstu umferð en öll köst Guðna, fyrir utan eitt sem var ógilt, mældust lengra en lengsta kast Norðmannsins Sven Martin Skagestad sem varð annar. Sá kastaði lengst 61,11m. Mímir Sigurðsson vann til bronsverðlauna en hans lengsta kast mældist 54,81m.

Íslendingar unnu tvöfalt í spjótkasti karla. Þar fór Sindri Hrafn Guðmundsson með sigur af hólmi með kasti upp á 76,40m. Dagbjartur Daði Jónsson vann silfurverðlaun en hans lengsta kast mældist 75,38m. Frábær árangur hjá köppunum. Hinn sænski Jakob Samuelsson varð þriðji með 75,08m.

Bætti 26 ára gamalt met

Irma Gunnarsdóttir keppti í þrístökki og átti frábæran dag í stökkgryfjunni. Hún stökk í þrígang lengra en tæplega 26 ára gamalt Íslandsmet Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur sem stóð í 13,18m fyrir daginn í dag. Irma byrjaði keppnina á að stökkva 12,93m (-1,8) sem var bæting á hennar besta árangri utanhúss um 4cm. Í annarri umferð stökk hún svo 13,30m (+1,6) og Íslandsmet staðreynd. Þriðja stökkið mældist 13,18m (+1,4). Irma bætti Íslandsmetið aftur í fjórðu umferð þegar hún stökk 13,32m (+1,3). Hún átti svo risastökk í fimmtu umferð, stökk 13,40 (+0,2) og bætti metið í þriðja sinn. Sjötta og síðasta stökk Irmu mældist 12,05 (-0,3).

Frábær sería hjá Irmu sem á nú Íslandsmetið í þrístökki, bæði innan- og utanhúss. Irma hafnaði í fjórða sæti í keppninni en það var Svíinn Maja Åskag sem varð Norðurlandameistari með 14,00 (+1,7). Landa hennar, Rebecka Abrahamsson, varð önnur með 13,59 (+2,2) og Rachel Ombeni frá Noregi varð þriðja með 13,43 (+1,7), einungis 3cm lengra en stökk Irmu.

Kolbeinn bætti eigið met

Kolbeinn Höður Gunnarsson fylgdi eftir frábæru 100m hlaupi í gær með því að gera sér lítið fyrir og bæta eigið Íslandsmet í 200m hlaupi. Kolbeinn kom þriðji í mark á tímanum 20,91s (+0,8) sem var bæting á gamla metinu um fimm hundraðshluta. Svíinn Henrik Larsson kom fyrstur í mark á tímanum 20,44s og Finninn Viljami Kaasalainen varð annar á 20,90s.

Daníel Ingi Egilsson, sem varð Norðurlandameistari í þrístökki í gær, vann til silfurverðlauna í langstökkinu í dag. Hann stökk 7,53m (0,0) en hann á best 7,57m og var því alveg við sitt besta. Henrik Flåtnes varð Norðurlandameistari en hann stökk lengst 7,72m (+2,0). Hinn danski Kasper Larsen vann bronsið með 7,46m (+1,0).

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafnaði í fimmta sæti í 200m hlaupi kvenna. Hún kom í mark á tímanum 23,98s (+2,0). Julia Henriksson frá Svíþjóð kom fyrst í mark á 23,32s, Christine Bjelland Jensen varð önnur á 23,47s og Lisa Lilja frá Svíþjóð þriðja á 23,79s.

Vigdís Jónsdóttir hafnaði áttunda í sleggjukasti kvenna en hún átti eitt gilt kast í keppninni og mældist það 61,26m. Finninn Krista Tervo varð Norðurlandameistari í greininni með kasti upp á 71,86m, Katrine Koch Jacobsen frá Danmörku varð önnur með 70,54 og Suvi Koskinen frá Finnlandi þriðja með 68,85m.

Íslenski hópurinn nældi því alls í þrjú gull, fjögur silfur og tvö brons um helgina. Heildarúrslit mótsins má sjá hér.

Exit mobile version