Fyrsti keppnisdagur frjálsíþróttahluta Smáþjóðaleikanna fór fram á Matthew Micallef St. John frjálsíþróttavellinum á Marsa á Möltu í dag. Birna Kristín Kristjánsdóttir og Íris Anna Skúladóttir unnu til fyrstu verðlauna íslenska frjálsíþróttahópsins en keppt var til úrslita í alls tíu greinum.
Birna vann brons í langstökki
Birna Kristín keppti til úrslita í langstökki kvenna. Hún byrjaði keppnina af krafti og stökk 5,87m (+0,7) strax í fyrstu umferð og tók forystuna. Birna gerði ógilt í næstu umferð og heimakonan Claire Azzopardi skaust í forystuna með 6,12m. Þá stökk hin kýpverska Pentelista Charalambous sig upp í annað sætið með 5,94m.
Birna lengdi sig í þriðju umferð, stökk þá 5,95m (+1,2). Það dugði þó skammt þar sem Charalambous stökk 6,02m og hélt öðru sætinu. Næstu tvö stökk Birnu reyndust ógild á meðan Azzopardi lengdi sig í 6,14m í fimmtu umferðinni. Síðasta stökk Birnu mældist 5,84m (+0,7) og þriðja sætið því staðreynd. Hvorki Azzoprdi né Charalambous lengdu sig frekar og fór gullið því til heimamanna og silfrið til Kýpverja. Þetta eru fyrstu verðlaun Birnu á Smáþjóðaleikum í einstaklingsgrein en fyrir á hún silfurverðlun í 4x100m boðhlaupi frá leikunum í Svartfjallalandi 2019.
Íris Anna með brons og bætingu
Íris Anna keppti í 10.000m hlaupinu í dag. Hún staðsetti sig vel, beint fyrir aftan heimakonuna Lisu Bezzina sem leiddi hlaupið frá upphafi. Framan af var hópur fimm kvenna sem leiddi hlaupið en um miðbik þess slitu þrjár sig frá hinum tveimur, Bezzina var áfram í forystunni en Íris og Ariadna Fenes Areny frá Andorra fylgdu fast á eftir.
Þegar um fimm hringir voru eftir af hlaupinu missti Íris þær Bezzina og Areny frá sér og náði ekki að halda í við þær á lokasprettinum. Íris var samt sem áður grjóthörð og kláraði hlaupið vel á tímanum 36:00,19 sem er bæting á hennar besta árangri um 10 sekúndur. Bezzina tók gullið á 35:27,43 og Areny silfrið á 35:41,96. Góður árangur hjá Írisi sem er að keppa á sínum þriðju leikum, þó þeim fyrstu síðan árið 2007.
Ingvi Karl og Elín Sóley í fjórða
Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir keppti í 800m hlaupi. Hún hafnaði í fjórða sætinu í afar taktísku og sérstöku hlaupi. Hlaupið byrjaði nokkuð hratt en þegar um 200m voru búnir hægðist verulega á hlaupurunum og enduðu þær á að hlaupa fyrstu 400m á um 70 sekúndum. Elín missti Clare Mcnamara fram úr sér á lokasprettinum og endaði fjórða eins og áður segir. Gina Mcnamara frá Möltu sigraði í hlaupinu á 2:12,46. Charline Mathias frá Lúxemburg var önnur á 2:12,89 og Clare Mcnamara þriðja á 2:16,92. Tími Elínar var 2:17,18.
Ingvi Karl Jónsson hafnaði í fjórða sæti í kringlukasti karla með 50,39m. Danijel Futula frá Svartfjallalandi sigraði með 62,79m, Bob Bertemess frá Lúxemburg varð annar með 59,16m og Giorgos Koniarakis frá Kýpur þriðji með 56,44m.
Kristófer fimmti á sínum besta tíma
Kristófer Þorgrímsson gerði vel í 100m hlaupi karla. Hann hljóp sig örugglega inn í úrslit á tímanum 10,92s (+1,1). Hann hafnaði í 2. sæti í sínum riðli og var fimmti maður inn í úrslitin.
Í úrslitahlaupinu kom hann í mark á tímanum 10,78s (+1,2) sem skilaði honum fimmta sætinu. Þetta var bæting á hans besta árangri um einn hundraðshluta. Francesco Sansovini frá San Marinó vann hlaupið á nýju landsmeti, 10,41s. Stavros Avgoustinou frá Kýpur varð annar á 10,63s og Beppe Grillo frá Möltu þriðji á 10,66s.
Arnar Pétursson hafnaði í fimmta sæti í 10.000m hlaupi karla á tímanum 31:22,41. Heimamaðurinn Jordan Gusman vann hlaupið á 29:37,96 sem var bæting á 36 ára gönlu mótsmeti um rúmar sex sekúndur.
Sæmundur Ólafsson hljóp sig inn í úrslit í 400m hlaupi karla sem fram fara á fimmtudag. Hann hljóp á 49,37s sem dugði í áttunda og síðasta sætið inn í úrslit. Ívar Kristinn Jasonarson hljóp á 49,51s og hafnaði í 9. sæti.
Heimamenn áttu stórkostlegan dag og unnu alls til sex gullverðlauna og fimm bronsverðlauna. Hér má sjá öll úrslit dagsins og hér má nálgast upptöku af keppninni.
Næsti keppnisdagur verður á fimmtudag, 1. júní.