Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Smáþjóðaleikarnir: Þrjár bætingar á öðrum degi

Annar keppnisdagur frjálsíþróttahluta Smáþjóðaleikanna fór fram í glampandi sól og 23 gráðum í dag. Sex Íslendingar kepptu til útslita auk þess sem tveir til viðbótar kepptu í undanúrslitum í sínum greinum. Þrjár bætingar litu dagsins ljós hjá íslenska hópnum.

Birna Kristín með stórbætingu

Birna Kristín Kristjánsdóttir og Glódís Edda Þuríðardóttir kepptu til úrslita í 100m grindahlaupi kvenna. Glódís rakst því miður illa í aðra grind sem varð þess valdandi að hún datt og kláraði ekki hlaupið. Birna Kristín hljóp afar vel og kom fjórða í mark á tímanum 14,33s (+0,2) sem er bæting á hennar besta árangri um hálfa sekúndu.

Hin kýpverska Natalia Christofi vann hlaupið á tímanum 13,01s og bætti þar með mótsmetið sem sett var á Kýpur 2009 um 14 hundraðshluta. Victoria Rausch frá Lúxemburg var önnur á 13,55s og Lerato Pages Maboka þriðja á 14,04s.

Úrslit í 100m grindahlaupi kvenna. Birna Kristín hleypur á 7. braut og Glódís Edda á 3. braut.

Sæmundur með góða bætingu

Sæmundur Ólafsson keppti til úrslita í 400m hlaupi karla. Hann hljóp á 1. braut og var með sterka hlaupara í augsýn allt hlaupið. Sæmundur hljóp gífurlega vel, var sterkur síðustu 100m og kom í mark í sjöunda sæti á tímanum 48,76s. Hann vann sig því upp um eitt sæti frá því í undanúrslitunum. Tíminn er sá besti sem Sæmundur hefur náð utanhúss en hans besti tími innanhúss er 48,69s frá því í vetur.

Teo Adant frá Mónakó vann hlaupið á tímanum 45,81s sem er bæting á tveggja daga gömlu mótsmeti sem hann setti í undanúrslitunum. Hann hefur nú bætt 32 ára gamalt mótsmet um samtals eina og hálfa sekúndu á leikunum. Heimamaðurinn Graham Pellegrini var annar í hlaupinu á nýju landsmeti, 46,83s. Alessandro Gasperoni frá San Marínó var þriðji á tímanum 47,67s sem er einnig nýtt landsmet.

Úrslit í 400m hlaupi karla. Sæmundur hleypur á 1. braut.

Ingibjörg og Ísak Óli nálægt sínu besta

Ingibjörg Sigurðardóttir keppti í úrslitum 400m hlaups kvenna. Ingibjörg kom sjötta í mark á tímanum 57,59s sem er einungis tveimur hundraðshlutum frá hennar besta tíma utanhúss. Hún á best 57,30s innanhúss. Flott hlaup hjá Ingibjörgu sem er að keppa í fyrsta sinn fyrir landsliðið í fullorðinsflokki.

Úrslit í 400m hlaupi kvenna. Ingibjörg hleypur á 1. braut.

Ísak Óli Traustason keppti í 110m grindahlaupi karla. Hann átti mjög gott hlaup í undanúrslitum og hljóp sig örugglega inn í úrslitin. Hann hljóp á 14,94s (+0,3) og var þriðji inn í úrslitin. Tíminn er hans besti síðan 2019 og aðeins fjórum hundraðshlutum frá hans besta árangri frá upphafi.

Undanúrslit í 110m grindahlaupi karla. Ísak Óli hleypur á 6. braut.

Ísak hljóp nokkuð vel framan af úrslitahlaupinu. Hann var í fimmta sæti yfir níundu og næstsíðustu grind en rakst illa í þá tíundu og missti jafnvægið. Hann endaði sjötti á tímanum 15,40s (-0,5). Hlaupið vannst á 14,33s, það gerði Francois Graillet frá Lúxemborg. Konstantinos Tziakouris frá Kýpur var annar á 14,52s og landi hans, Christos Economides, þriðji á 14,63s.

Úrslit í 110m grindahlaupi karla. Ísak Óli hleypur á 6. braut.

Sindri fimmti í kúluvarpi

Sindri Lárusson keppti í úrslitum kúluvarps karla. Hann kastaði lengst 16,42m sem setti hann í fimmta sætið. Sindri á best 17,22m en 16,52m í ár og skilaði því góðu dagsverki á sínum fyrstu Smáþjóðaleikum. Bob Bertemes frá Lúxemburg vann keppnina örugglega með 20,51m. Tomas Durovic frá Svartfjallalandi vann silfur með 18,36m og landi hans, Risto Drobnjak, brons með 17,83m.

Sindri í 6. umferð í kúluvarpinu. Kastið mældist 15,57m.

Kristófer í úrslit á sínum besta tíma

Undanúrslit í 200m hlaupi karla fóru fram í dag. Þar áttu Íslendingar tvo keppendur, þá Kristófer Þorgrímsson og Anthony Vilhjálm Vilhjálmsson. Anthony hljóp í fyrri riðlinum og kom þar fjórði í mark á 22,35s (-1,9).

Fyrri riðill undanúrslita 200m hlaups karla. Anthony hleypur á 7. braut.

Kristófer hljóp í síðri riðlinum þar sem hann náði fjórða sæti á 21,75s (-2,5). Þetta er bæting á hans besta árangri um 19 hundraðshluta.

Seinni riðill undanúrslita 200m hlaups karla. Kristófer hleypur á 7. braut.

Kristófer endaði fimmti í heildina og mun keppa í úrslitum á laugardaginn. Anthony endaði níundi og var 15 hundraðshlutum frá því að komast í úrslitin. Besta tíma dagsins náði heimamaðurinn Graham Pellegrini sem hafði nokkru áður hlaupið á nýju landsmeti í 400m hlaupinu eins og áður segir. Hann hljóp á 21,36s.

Hér má nálgast öll úrslit mótsins og hér má sjá upptöku af streymi frá keppni dagsins (frjálsíþróttakeppnin hefst á 5:37:00). Þriðji og síðasti keppnisdagurinn fer fram á laugardaginn.

Exit mobile version