Demantamótið í Flórens: Enginn Jacobs en Kerley fær verðuga keppni

Þriðja mót Demantamótaraðarinnar fer fram í Flórens á Ítalíu í kvöld. Búast má við spennandi keppni í mörgum greinum.

Jacobs dró sig enn og aftur úr keppni

Ólympíumeistarann í 100m hlaupi, Marcell Jacobs, og heimsmeistarinn Fred Kerley hafa eldað grátt silfur í nokkurn tíma og því höfðu mörg beðið spennt eftir því að sjá þá loks mætast á brautinni í kvöld. Ekkert verður þó af því einvígi þar sem Jacobs dró sig úr keppni á síðustu stundu vegna meiðsla. Þetta er í sjötta sinn síðan í maí 2022 sem Jacobs dregur sig úr keppni á móti Kerley vegna meiðsla. Við þurfum því enn og aftur að bíða eftir því að kapparnir mætist á brautinni en það gerðist síðast í úrslitahlaupinu í Tókýó.

Þrátt fyrir þetta verður 100m hlaupið gífurlega spennandi. Þegar ljóst var að Jacobs myndi ekki keppa var Marvin Bracy boðið sæti í hlaupinu og munu því allir verðlaunahafarnir frá því á HM í Oregon í fyrra, þeir Kerley, Bracy og Treyvon Bromell, hlaupa. Ásamt þeim eru Akani Simbine og Ferdinand Omanyala, sem báðir hafa hlaupið afar vel í sumar, á keppendalistanum. Omanyala á besta tíma ársins (9,84s) og Kerley þann næstbesta (9,88s).

Í 100m hlaupi kvenna eru stór nöfn á keppendalistanum. Dina Asher-Smith, Marie-Josée Ta Lou, Jenna Prandini, Gabrielle Thomas og Abby Steiner mæta allar í blokkirnar. Þá er Evrópumeistarinn Gina Lückenkemper einnig á listanum ásamt þeim Morolake Akinosun og Imani Lansiquot. Ta Lou hefur hlaupið þeirra hraðast í ár (10,78s) og þar á eftir koma Akinosun (10,95s) og Asher-Smith (10,98s).

Davis og Burks útkljá málin

Aðrar sem hafa eldað grátt silfur undanfarið eru langstökkvararnir Quanesha Burks og Tara Davis. Þær hafa skotið fast á hvor aðra á samfélagsmiðlum í upphafi tímabils en þær eiga nú annað og fjórða lengsta stökk ársins. Spennandi verður að sjá hvor þeirra muni eiga montréttinn eftir kvöldið í kvöld. Þær munu mæta mjög sterkum keppendum eins og Jazmin Sawyers, sem keppir á sínu fyrsta móti síðan hún vann Evrópumeistaratitilinn innanhúss og fór yfir sjö metra í fyrsta sinn, ásamt hinni margreyndu Ivönu Vuletu, Malaiku Mihambo, Marynu Bekh-Romanchuk og Ese Brume.

Cheptegei mætir aftur á brautina

Heimsmeistarinn í 10.000m og Ólympíumeistarinn í 5.000m, Joshua Cheptegei, mætir á brautina í fyrsta sinn síðan á HM í Oregon. Hann mun hlaupa 5.000m og fær þar verðuga keppni frá Ólumpíumeistaranum í 10.000m, Selemon Barega, Berihu Aregawi, Yomif Kejelcha, Samuel Tefera, Nicholas Kipkorir og Jacob Krop.

Hvað gera Hall og Bol í grindinni?

Femke Bol mun keppa í 400m grindahlaupi. Hún byrjaði tímabilið afar vel um síðustu helgi þegar hún hljóp á 53,12s sem er hennar besta opnun frá upphafi. Hún hljóp þá í fyrsta sinn með 14 skrefum yfir fyrstu grindurnar og verður spennandi að sjá hvort hún haldi áfram að prófa sig áfram með þá strategíu í kvöld. Bol mun m.a. mæta þrautarprinsessunni Önnu Hall sem átti frábæra þraut í Götzis um síðustu helgi. Hún halaði þá inn 6988 stigum, sem setur hana í fimmta sæti yfir bestu sjöþrautarkonur sögunnar. Hall er einnig góður 400m grindahlaupari og hefur hlaupið á 54,48s í ár sem er sjötti besti tími ársins í greininni. Shamier Little og Clayton Rushell geta einnig blandað sér í baráttuna þó þær skáki Bol að öllum líkindum ekki.

Spennandi einvígi mun eiga sér stað í 1500m hlaupi kvenna þar sem hlaupadrottningin Faith Kipyegon mun mæta hinni grjóthörðu Lauru Muir. Þá munu þeir Grant Holloway og Devon Allen mætast í 110m grindahlupi en Holloway vill örugglega komast aftur á sigurbraut eftir tapið á móti Rasheed Broadbell í Rabat. Þá mætir heimsmethafinn í 3000m hindrunarhlaupi kvenna, Beatrice Chepkoech, bronsverðlaunahafanum frá Oregon í fyrra, Mekides Abebe, heimsmeistaranum frá London 2017, Emmu Coburn, Jackline Chepkoech og Fancy Cherono. Allir verðlaunahafarnir frá Oregon í stangarstökki kvenna, þær Katie Moon, Sandy Morris og Nina Kennedy, munu einnig etja kappi í kvöld.

Af öðrum keppendum má nefna Joe Kovacs og Tom Walsh í kúluvarpi karla, Christian Taylor og Fabrice Zango í þrístökki karla, Woo Sanghyeok og JuVaughn Harrison í hástökki karla, Erriyon Knighton og Joseph Fahnbulleh í 200m karla og Valarie Allman og Feng Bin í kringlukasti kvenna.

Mótinu verður strymt beint á Youtube og hefst útsending kl. 18:00 á íslenskum tíma.