Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Smáþjóðaleikarnir: Fimm verðlaun á lokadeginum

Smáþjóðaleikunum á Möltu lauk í gær þegar keppt var til úrslita í tólf greinum. Íslenski hópurinn átti frábæran dag og vann til alls fimm verðlauna.

Örn Smáþjóðaleikameistari

Örn Davíðsson gerði sér lítið fyrir og vann gull í spjótkasti karla. Hann leiddi keppnina frá upphafi til enda og kastaði rúmum fimm metrum lengra en næsti maður. Örn hóf keppnina á að kasta 66,34m í fyrstu umferð. Hann lengdi sig jafnt og þétt í hverju kasti og það lengsta kom í sjöttu og síðustu umferð, 71,69m. Kýpverjinn Spyros Savva vann silfurverðlaun með 66,20m og Matthias Verling frá Liechtenstein bronsverðlaun með 64,36m.

Þetta eru sjöttu verðlaun Arnar á Smáþjóðaleikum og önnur gullverðlaun hans en hann varð einnig Smáþjóðaleikameistari í spjótkasti í San Marínó árið 2017.

Silfur og brons í 400m grindahlaupi

Ívar Kristinn Jasonarson vann silfurverðlaun í 400m grindahlupi karla á tímanum 52,17s. Andrea Ercolani Volta kom í mark fimm hundraðshlutum á undan Ívari og vann gullið. Tími Volta, 52,12s, er nýtt landsmet. David Friedrich frá Lúxemburg varð þriðji á tímanum 53,76s.

Ingibjörg Sigurðardóttir nældi sér í bronsverðlaun í 400m grindahlaupi kvenna í afar jöfnu hlaupi. Ingibjörg hljóp vel og var í forystu framan af hlaupinu en Kalypso Stavrou frá Kýpur og Duna Vinals Calixto náðu fram úr henni á lokametrunum. Ingibjörg kom í mark á tímanum 60,63s sem er bæting á hennar besta árangri um eina og hálfa sekúndu og einungis þrettán hundraðshlutum frá lágmarki á EM U23. Stavrou kom fyrst í mark á 60,45s og Calixtoþar á eftir á 60,60s.

Tvö brons í boðhlaupunum

Íslendingar sendu boðhlaupssveitir í 4x100m hlaup karla og 4x400m hlaup karla og kvenna. Íslenska sveitin í 4x100m karla, skipuð þeim Ísaki Óla Traustasyni, Anthony Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Sæmundi Ólafssyni og Kristófer Þorgrímssyni, hafnaði í fjórða sæti á tímanum 41,55s. Heimamenn unnu hlaupið á 40,59s, sveit San Marínó vann silfur á 41,15s og sveit Kýpverja brons á 41,19s.

Íslenska sveitin í 4x400m hlaupi karla var skipuð Ívar Kristni, Anthony Vilhjálmi, Ísaki Óla og Sæmundi. Þeir komu í mark á tímanum 3:18,05 og unnu til bronsverðlauna. Sæmundur átti frábæran lokasprett og tók fram úr sveit Lúxemburg á lokametrunum. Sveit Mónakó vann hlaupið á 3:12,42 og Kýpverjar komu þar rétt á eftir í öðru sæti á 3:12,64.

Kvennasveitin í 4x400m var skipuð þeim Glódísi Eddu Þuríðardóttur, Þórdísi Evu Steinsdóttur, Elínu Sóleyju Sigurbjörnsdóttur, og Ingibjörgu. Sveitin kom í mark á tímanum 3:51,76 og hafnaði í þriðja sætinu. Ingibjörg tryggði bronsið með því að taka fram úr sveit Mónakó á lokasprettinum. Sveit Kýpur vann hlaupið á 3:44,31 og heimakonur komu þar á eftir á 3:46,78.

Kristófer sjöundi í 200m

Kristófer Þorgrímsson hljóp til úrslita í 200m hlaupi karla. Kristófer hljóp á 8. braut og átti gott hlaup. Hann kom sjöundi í mark á tímanum 21,78s (+1,3) sem er einungis þremur hundraðshlutum frá hans besta tíma frá upphafi sem náði í undanúrslitunum á fimmtudag. Heimamaðurinn Graham Pellegrini vann gullið á 21,22s, David Wallig frá Luxemburg varð annar á 21,28s og Francesco Sansovini frá San Marínó þriðji á 21,39s.

Afrakstur íslenska hópsins á lokadeginum var því fimm verðlaun. Í heildina vann hópurinn til sjö verðlauna, eitt gull, eitt silfur og fimm brons og endaði í sjöunda sæti verðlaunatöflunnar. Heimamenn á Möltu enduðu á toppi töflunnar með alls 32 verðlaun, þar af hvorki meira né minna en 15 gullverðlaun – meira en tvöfalt fleiri en Kýpverjar sem hlutu næstflest gullverðlaun.

LandGullSilfurBronsSamtals
Malta1571032
Kýpur112524
Lúxemburg37414
Mónakó3003
Andorra25411
San Marínó2136
Ísland1157
Svartfjallaland1113
Liechtenstein0011
Verðlaunatafla frjálsíþróttahluta Smáþjóðaleikanna á Möltu.
Exit mobile version