Demantamótaröðin: Þrjú heimsmet féllu í París

Hvorki meira né minna en þrjú heimsmet féllu á Demantamótinu í París í kvöld. Faith Kipyegon frá Kenýu bætti heimsmetið í 5000m hlaupi kvenna, einungis viku eftir að hún bætti heimsmetið í 1500m hlaupi. Lamecha Girma frá Eþíópíu bætti 20 ára gamalt heimsmet í 3000m hindrunarhlaupi karla og Norðmaðurinn Jakob Ingebrigsten bætti 26 ára gamalt heimsmet í 2 mílu hlaupi.

Ótrúlegur Ingebrigsten

Kvöldið á Charlety leikvanginum byrjaði frábærlega með 2 mílu hlaupi karla. Þetta er óhefðbundin vegalend sem ekki er oft keppt í en Ingebrigsten var búinn að gefa það út fyrir hlaupið að hann ætlaði að reyna við heimsmet, eða öllu heldur heimsbesta árangur (eins og heimsmet í óhefðbundnum greinum eru yfirleitt kölluð), Kenýumannsins Daniels Komen frá árinu 1997. Komen var sá eini sem hafði hlaupið vegalengdina undir átta mínútum fyrir kvöldið í kvöld en metið hans var 7:58,61. Enginn hlaupari hafði komist nálægt metinu – sá sem næst hafði komist var Ástralinn Craig Mottram en hann hljóp á 8:03,50 árið 2007.

Ingebrigsten fór í gegnum fyrstu 1000m með hjálp tveggja héra á 2:29,07. Þegar hérarnir höfðu lokið við dagsverk sitt stóð Ingebrigsten einn eftir á móti klukkunni og ljósunum við sargið sem sýndu heimsmetshraðann. Ingebrigsten hélt hraðanum vel og fór í gegnum 3000m á 7:24,00. Þess má geta að Evrópumetið í 3000m er 7:26,62 og er í eigu Belgans Mohammed Mourhit frá árinu 2000. Ingebrigsten hljóp síðustu 218 metrana á rúmum 30 sekúndum, kom í mark á tímanum 7:54,10 og bætti þar með met Komens um tvær og hálfa sekúndu. Ishmael Rokitto Kipkurui kom annar í mark á tímanum 8:09,23 og Kuma Girma þriðji á 8:10,34.

Kipyegon með tvö heimsmet á sjö dögum

Kipyegon bætti átta ára gamalt heimsmet Genzebe Dibaba í 1500m hlaupi á Demantamótinu í Flórens fyrir viku síðan. Það virtist þó ekki sitja í henni í 5000m hlaupinu í kvöld. Kipyegon, sem var að hlaupa sitt þriðja 5000m hlaup á ferlinum og það fyrsta í átta ár, mætti heimsmethafanum í 5000m og 10.000m hlaupum, Letesenbet Gidey, og heimsmethafanum í 5km götuhlaupi, Ejgayehu Taye. Heimsmet Gidey í 5000m var 14:06,20, sett í Valencia fyrir þremur árum.

Heimsmethafinn í 3000m hindrunarhlaupi, Beatrice Chepkoech, héraði hlaupið og fór í gegnum fyrstu 3000m á 8:31,91. Gidey var þá í forystu en Kipyegon og Taye fylgdu fast á hæla hennar. Ljósin á sarginu sýndu að þær voru á heimsmetshraða. Kipyegon tók forystuna þegar um 600m voru eftir af hlaupinu en Gidey fylgdi henni. Þær höfðu aðeins misst hraðann niður, voru komnar nokkrum metrum á eftir ljósunum á sarginu og heimsmetið virtist ætla að renna þeim úr greipum.

Kipyegon fór í gegnum 4600m á 13:04,1 og því var ljóst að hún þyrfti að hlaupa síðasta hringinn á um 62 sekúndum til að ná heimsmetinu af Gidey. Kipyegon fann aukagír á síðustu 300m og stakk Gidey af. Kipyegon hljóp síðasta hringinn á 61,1s og kom í mark á tímanum 14:05,20. Nýtt heimsmet staðreynd og hún ætlaði vart að trúa sínum eigin augum þegar hún leit á klukkuna í markinu. Gidey kom í mark á 14:07,94 sem er þriðji besti tími sögunnar. Taye varð þriðja á 14:13,31 sem er um hálfri sekúndu frá hennar besta árangri frá upphafi.

Girma gaf allt sitt

Heimsmetið í 3000m hindrunarhlaupi var 7:53,63 fyrir kvöldið í kvöld og hafði það staðið frá árinu 2004. Metið var í eigu Saif Saaeed Shaheen frá Katar en Kenýumaðurinn Brimin Kiprop Kipruto var einungis einum hundraðshluta frá metinu þegar hann hljóp á 7:53,64 í Mónakó 2011.

Það var ljóst að Girma hafði sett markmið hátt fyrir hlaupið í kvöld en hann bað héra hlaupsins í kvöld um að hlaupa á hraða upp á 7:52. Þeir fóru í gegnum fyrstu 1000m á 2:36,65 og þegar rúmir fjórir hringir voru eftir af hlaupinu tók Girma málin í sínar hendur og fór fram úr héranum. Hann var nokkra metra á undan ljósunum á sarginu sem sýndu heimsmetshraðann og leit afskaplega vel út dyggilega studdur af áhorfendum. Girma fór í gegnum 2000m á 5:12,14 og heimsmetið í augsýn.

Girma missti aðeins dampinn síðustu 600m metrana og ljósin á sarginu nálguðust hann óþægilega mikið. Hann tipplaði á síðustu vatnsgryfjuna og virtist vera að missa metið úr greipum sér. Girma gaf þó allt í síðustu 150 metrana og náði að halda út. Hann kom í mark á tímanum 7:52,11 og lagðist örmagna í brautina. Þriðja heimsmet kvöldsins staðreynd. Þetta er annað heimsmet Girma á árinu en hann bætti heimsmetið í 3000m hlaupi innanhúss í vetur. Ryuji Miura kom annar í mark á nýju japönsku meti, 8:09,91. Spánverjinn Daniel Arce varð þriðji á 8:10,63.

Hodgkinson setti breskt met

Bretinn Keely Hodkinson vann 800m hlaup kvenna örugglega á nýju bresku meti, 1:55,77. Hún bætti þar með eigið met um 11 hundraðshluta en þetta var fyrsta hlaup Hodgkinson á tímabilinu. Ajee Wilson varð önnur í hlaupinu á 1:58,16 og Natoya Goule þriðja á 1:58,23.

Mörg höfðu beðið spennt eftir fyrsta hlaupi Sydney McLaughlin-Levrone á tímabilinu. Hún hljóp 400m í kvöld í fyrsta sinn síðan árið 2018 en hún er þekktari sem 400m grindahlaupari. Hún byrjaði hlaupið afar hratt og var komin upp að hlið Marileidy Paulino sem hljóp einni braut utar eftir um 100 metra. Paulino átti besta tíma ársins fyrir hlaupið í kvöld, 48,98s. Það stefndi því í svakalegan tíma héldi McLaughlin-Levrone þetta út. Það gerði hún hins vegar ekki. Hún stífnaði vel síðustu 100m, Paulino sigldi fram úr henni og kom fyrst í mark á tímanum 49,12s. McLaughlin-Levrone kom önnur í mark á 49,71 og Salwa Eid Naser varð þriðja á 49,95s.

Af öðrum úrslitum kvöldins má nefna að Emmanuel Wanyonyi vann 800m hlaup karla á besta tíma ársins, 1:43,27. Gabrielle Thomas vann 200m hlaup kvenna á tímanum 22,05s (-0,4). Noah Lyles vann 100m hlaup karla á 9,97s (-0,9), einum hundraðshluta á undan Ferdinand Omanyala. Ólympíumeistarinn Lamont Marcell Jacobs varð sjöundi í hlaupinu á 10,21s. Haruka Kitaguchi vann spjótkast kvenna með 65,09m og Valarie Allman kringlukast kvenna með 69,04m. Auriol Dongmo vann kúluvarp kvenna með 19,72m. Nicola Olyslagers vann hástökk kvenna með 2,00m og Nina Kennedy stangarstökk kvenna með 4,77m. Miltiadis Tentoglou vann langstökk karla með 8,13m. Þá vann CJ Allen 400m grindahlaup karla á tímanum 47,92s og Grant Holloway 110m grindahlaup karla á 12,98s sem er besti tími ársins í greininni.

Öll úrslit mótsins má sjá hér. Næsta Demantamót ársins verður í Ósló þann 15. júní.