Demantamótið í París: McLaughlin-Levrone opnar tímabilið

Demantamótaröðin heldur áfram í kvöld. Nú er förinni heitið á Charlety leikvanginn í París. Að vanda verður hörð keppni í mörgum greinum.

McLaughlin-Levrone sleppir grindunum í þetta skiptið

Heimsmethafinn í 400m grindahlaupi kvenna mun keppa á sínu fyrsta móti á tímabilinu. Hún mun hlaupa einn hring á hlaupabrautinni í kvöld en sleppa grindunum í þetta skiptið. Mikið hefur verið rætt og ritað um það hvort hún ætli að einbeita sér alfarið að 400m hlaupi nú þegar hún hefur unnið allt sem hægt er að vinna í grindahlaupinu. Sjálf segist hún ekki vera hætt í grindinni en hún ætlar greinilega eitthvað að þreifa fyrir sér í 400m án grinda á tímabilinu.

McLaughlin-Levrone mun fá góða keppni í kvöld frá Marileidy Paulino sem á besta tímann í ár, 48,98s. Besti tími McLaughlin-Levrone er 50,07s frá árinu 2018 og verður að teljast afar líklegt að hún bæti þann árangur í kvöld. Heimsmet hennar í 400m grind er 50,68s. Heimsmeistarinn 2019, Salwa Eid Naser, er einnig á keppendalistanum en hún er að koma til baka eftir tveggja ára bann vegna brots á reglum um lyfjapróf. Sjöþrautarkonan Anna Hall er einnig á listanum en hún varð þriðja í 400m grind í Flórens í síðustu viku.

Nýbakaður heimsmethafi mætir til leiks

Hinn nýbakaði heimsmethafi í 1500m hlaupi kvenna, Faith Kipyegon, mun reyna fyrir sér í 5000m hlaupi. Hún mun mæta heimsmethafanum í 5000m og 10.000m hlaupum, Letesenbet Gidey, og heimsmethafanum í 5km götuhlaupi, Ejgayehu Taye. Fjórði heimsmethafinn, Beatrice Chepkoech, mun síðan héra hlaupið en hún á heimsmetið í 3000m hindrunarhlaupi. Hún á að fara í gegnum 3000m á 8:32,5 sem er hraði upp á 14:14 í 5000m. Með heimsmethöfunum munu hlaupa Laura Muir, Lemlem Hailu, Margaret Kipkemboi, Agnse Ngetich og Alicia Monson svo einhverjar séu nefndar.

Jacobs kominn í lag en enginn Kerley

Lamont Marcell Jacobs hefur hætt við keppni á fyrstu mótum ársins vegna meiðsla en virðist nú vera orðinn heill og mun keppa í 100m hlaupi. Það er þó enginn Fred Kerley á startlistanum og við þurfum því áfram að bíða eftir því að þeir mætist á brautinni. Ferdinand Omanyala, sem hefur hlaupið hraðast allra í ár, mun veita Jacobs góða keppni ásamt þeim Noah Lyles, Letsile Tebogo og Ronnie Baker.

Í 200m hlaupi kvenna mætast þær Dina Asher-Smith, Gabrielle Thomas, Abby Steiner, Jenna Prandini og Marie-Josée Ta Lou.

Spennandi stangarstökkskeppni

Allir verðlaunahafarnir frá Oregon í stangarstökki kvenna, Katie Moon, Sandi Morris og Nina Kennedy, eru mættar til Parísar. Moon vann í Flórens og eiga Morris og Kennedy því harma að hefna. Þær Tina Sutej og Alysha Newman geta einnig blandað sér í baráttuna um sigurinn.

Keppendalistann í heild sinni má nálgast hér. Þar verður einnig hægt að fylgjast með úrslitum í rauntíma. Mótið verður sýnt í beinni útsendingu á Youtube og hefst hún kl. 19:00 á íslenskum tíma.