Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Demantamótaröðin: Ingebrigsten og Warholm fóru mikinn á heimavelli

Fimmta mót Demantamótaraðarinnar fór fram á Bislett leikvanginum í Ósló í kvöld. Heimamennirnir Jakob Ingebrigsten og Karsten Warholm stálu senunni með frábærri frammistöðu.

Ingebrigsten bætti eigið Evrópumet

Mikil eftirvænting var fyrir 1500m hlaupi karla sem var síðasta grein kvöldins. Eitthvað hafði verið rætt um að heimsmetið í greininni gæti verið í hættu en Jakob Ingebrigsten hafði talað um það í viðtölum í aðdraganda mótsins að hann hafi augastað á metinu sem er í eigu Hicham El Guerrouj og hefur staðið frá árinu 1998.

Ingebrigsten byrjaði hlaupið hóflega og fór í gegnum fyrstu 800m á 1:52. Á Demantamótinu í París fyrir einungis sex dögum náði hann besta árangri frá upphafi í 2 mílu hlaupi og það hlaup virtist mögulega hafa setið eitthvað í honum. Hann fór í gegnum 1200m á 2:46,91 og Mohamed Katir var sá eini sem gat haldið í við Ingebrigsten. Katir átti þó ekki roð í Norðmanninn sem gaf vel í síðuðustu 200m og kom í mark á tímanum 3:27,95. Tíminn er bæting á hans eigin Evrópumeti um 37 hundraðshluta en þó tæpum tveimur sekúndum frá heimsmetinu. Katir kom annar í mark á 3:28,89 og Yared Nuguse þriðji á nýju Norður-Ameríkumeti, 3:29,02.

Alls fóru átta hlauparar undir 3:30 en aldrei áður hafa svo margir hlauparar gert það í einu og sama hlaupinu. Þeirra á meðal voru tveir Norðmenn en Narve Gilje Nordås varð áttundi á 3:29,47 og bætti sinn besta árangur um tæpar þrjár sekúndur. Hann stökk þar með upp fyrir bæði Filip og Henrik Ingebrigsten á norska afrekalistanum. Svíinn Andreas Almgren stórbætti sig einnig í hlaupinu en hann kom tólfti í mark á tímanum 3:32,00 sem er bæting hjá honum um rúmar fjórar sekúndur. Hann sló sænska metið sem var í eigu Kalle Berglund um tæpar tvær sekúndur.

Warholm í algjörum sérflokki

Eftir erfitt tímabil í fyrra vegna meiðsla þar sem hann náði einungis sjöunda sætinu á HM í Oregon er Karsten Warholm í hefndarhug þetta árið. Hann átti sitt fyrsta hlaup á tímabilinu í kvöld og olli ekki vonbrigðum. Hann hljóp á tímanum 46,52s sem er nýtt Demantamótaraðarmet en það met átti hann sjálfur frá því hann bætti heimsmetið í fyrsta sinn árið 2021 á sama móti (46,70s). Þetta er fjórði besti tími sögunnar og á Norðmaðurinn nú þrjá af fimm bestu tímum sögunnar. CJ Allen var annar í hlaupinu á nýju persónulegu meti, 47,58s. Wilfried Happi varð svo þriðji á 48,13s.

Bol nálægt eigin Evrópumeti

Femke Bol vann 400m grindahlaup kvenna örugglega á tímanum 52,30s sem er besti tími heimsins það sem af er ári og mótsmet. Hún var ekki langt frá Evrópumeti sínu sem hún setti á Ólympíuleikunum í Tókýó (52,03s). Russel Clayton var önnur í hlaupinu á 53,84s og Gianna Woodruff þriðja á 54,46s.

Suður-Afríkumaðurinn Wayde van Niekerk virðist loksins vera kominn til baka eftir erfitt meiðslatímabil síðustu ár. Hann sigraði í 400m hlaupi karla á tímanum 44,38s. Muzala Samukonga kom annar í mark á tímanum 44,49s en Vernon Norwood varð þriðji einungis tveimur hundraðshlutum þar á eftir. Heimamaðurinn Håvard Bentdal Ingvaldsen varð fjórði á tímanum 44,86s sem er bæting á norska metinu um einn hundraðshluta. Metið var í eigu Karstens nokkurs Warholms.

Sigurgöngu Allman lauk

Jorinde van Klinken gerði sér lítið fyrir og vann kringlukast kvenna. Hún kastaði lengst 66,77m en Valarie Allman varð önnur með 66,18m. Sigurgöngu Allman lauk þar með en hún hafði verið ósigruð á fyrstu sex mótum sínum á tímabilinu. Sandra Perkovic varð þriðja með 65,26m.

Wojciech Nowicki vann sleggjukast karla á nýju Demantamótaraðameti, 81,92m. Rudy Winkler varð annar með 79,42m og Ethan Katzberg þriðji með 77,93m.

Knighton bætti met Bolt

Erriyon Knighton vann 200m hlaup karla á timanum 19,77s (+0,6). Hann bætti þar með mótsmetið, sem var í eigu geitarinnar Usain Bolt, um tvo hundraðshluta. Reynier Mena kom annar í mark á 20,09s og Joseph Fanbulleh þriðji á 20,23s.

Marie-Josée Ta Lou vann 100m hlaup kvenna á nýju mótsmeti, 10,75s (+0,9). Metið átti Marion Jones (10,82s) og hafði það staðið í 25 ár. Tími Ta Lou er jafnframt sá besti í heiminum það sem af er ári. Anthonique Strachan varð önnur á 10,92s og Shericka Jackson þriðja á 10,98s.

Kejecha og Kiplimo hnífjafnir

5000m hlaup karla bauð upp á gífurlega spennu. Yomif Kejelcha og Jacob Kiplimo fylgdu hvor öðrum allt hlaupið og enduðu á að koma hnífjanir í mark á sama tíma, 12:41,73, sem er besti tíminn í heiminum í ár. Kejelcha kom þó þremur þúsundustu hlutum á undan í mark og var dæmdur sigurinn. Relahun Haile Bekele varð þriðji á 12:46,21.

Eþíópíska ungstirnið Birke Haylom setti heimsmet U20 í mílu þegar hún sigraði mílu kvenna á 4:17,13 en hún er einungis 17 ára. Gamla metið var í eigu Zola Budd og hafði staðið frá árinu 1985 (4:17,57).

Duplantis og Rojas sigruðu

Heimsmethafarnir Mondo Duplantis og Yulimar Rojas sigruðu í sínum greinum í kvöld en buðu þó ekki upp á neina flugeldasýningu. Rojas stökk lengst 14,91m í þrístökkinu en Leyanis Pérez Hernández stökk aðeins fjórum sentímetrum styttra í öðru sætinu. Maryna Bekh-Romanchuk varð síðan þriðja með 14,75m.

Duplantis stökk yfir 6,01m í kvöld en felldi svo 6,12m þrívegis. Christopher Nielsen varð annar með 5,91m og Ernes John Obiena þriðji með 5,81m.

Öll úrslit mótsins má nálgast hér.

Exit mobile version