Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Þróun þátttöku í frjálsíþróttum á Íslandi frá 2004-2022

Aðsend grein frá Þráni Hafsteinssyni

Samkvæmt tölfræði ÍSÍ sem byggir á skýrslum sem íþróttafélög landsins skila inn árlega hafa miklar breytingar orðið á stuttum tíma á iðkendatölum í frjálsíþróttum á Íslandi. Svipaðar breytingar má sjá í keppendatölum og afrekatölum sem fengnar eru úr mótaforriti Frjálsíþróttasambands Íslands, Þór. Breytingarnar eru það miklar að þær kalla á umræður og aðgerðir innan frjálsíþróttahreyfingarinnar. Ástæðan fyrir því að tímabilið 2004-2022 er valið er vegna þess að tölur frá þessu tímabili eru aðgengilegar í opinberri tölfræði ÍSÍ. Hér koma nokkrar staðreyndir.

Heildariðkendafjöldi  í frjálsum minnkar

Ef skoðaðar eru heildariðkendatölur fyrir landið allt má sjá verulega breytingu frá 2004-20022. Árið 2004 voru skráðir iðkendur í frjálsíþróttum á landinu öllu 4897. Árið 2007 hafði þeim fjölgað í 5723 og voru yfir 5000 árin 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010. Frá 2011-2020 voru skráðir iðkendur á bilinu 4200-4900 ár hvert. 2021 fellur talan niður í  3635 og enn neðar árið 2022 eða 3574 sem er fækkun um 27% frá 2004 og fækkun um 37,5% frá árinu 2007. (Sjá mynd 1)

Mynd 1

Heildarkeppendafjöldi í frjálsum minnkar

Fjöldi virkra frjálsíþróttaiðkenda, þeirra sem taka þátt í skráðum frjálsíþróttamótum sýnir sömu tilheigingu og iðkendatölurnar. Árið 2004 er keppendafjöldinn 3010 og fer hæst í 3925 árið 2010 er kominn niður í 2476 árið 2017 og árið 2022 er fjöldi keppenda samkvæmt mótaforritinu Þór kominn niður í 1447. (Sjá mynd 2) Árið 2022 er keppendafjöldinn í frjálsíþróttum sem sagt kominn niður í 58% af þeim fjölda sem keppti  árið 2017 og niður í 37% af þeim fjölda sem keppti tólf árum áður eða árið 2010. Fjöldi iðkenda, keppenda og fjöldi afreka virðist sýna svipaða þróun. (Sjá myndir 2,3 og 4)

Mynd 2
Mynd 3
Mynd 4

Frjálsíþróttir að tapa samkeppninni við aðrar íþróttagreinar

Á árunum 2004-2014 voru frjálsíþróttir að jafnaði í 7.-8. sæti á listanum yfir fjölmennustu íþróttagreinarnar í landinu. Árið 2015 falla frjálsar niður í 9. sæti og árin 2021 og 2022 féllu frjálsar niður í að vera 10. fjölmennast íþróttagreinin sem iðkuð er á Íslandi.
Þá er hlutfall frjálsíþróttaiðkenda af heildar iðkendafjölda í íþróttum á landinu líka á gefa eftir. Árið 2004 var hlutfall frjálsíþróttaiðkenda 5,2% af heildaríþróttaiðkendafjölda á landinu(93.453) og fór hæst í 5,3% árið 2007. Árið 2012 fór prósentan í fyrsta skipti niður fyrir 4% en stendur nú í 2,4% af þeim 146.569 iðkendum sem skráðir eru í íþróttir árið 2022. Með öðrum orðum á meðan heildariðkendafjöldi í íþróttuma á Íslandi vex úr 93.453 í 146.569 þá fækkar iðkendum í frjálsíþróttum. Ekki hefur tekist að laða aukinn iðkendafjölda í íþróttum í frjálsíþróttir. (Sjá myndir 5 og 6)

Mynd 5
Mynd 6

Iðkendum í frjálsíþróttum fjölgað og fækkað á höfuðborgarsvæðinu

Í Reykjavík hefur iðkendum fjölgað um 50,5% frá 2004-2022 eða úr 616 iðkendum í 927 og fóru hæst í 1205 iðkendur árið 2013. Frá árinu 2017-2022 hefur iðkendum í Reykjavík hins vegar fækkað um 12,6%. Í kraganum (Hafnarfirði, Kópavogi og Mosfellsbæ) hefur iðkendum fjölgað frá 2004 -2022 um 12,9%  úr 1075 árið 2004 í 1213 árið 2022 og fór hæst í 1466 iðkendur árið 2017. Iðkendum í kraganum hefur hins vegar fækkað um 17,3% á tímabilinu 2017-2022. Iðkendum á höfuðborgarsvæðinu hefur því fjölgað úr 1691 árið 2004 í 2140 árið 2022 eða um 26,5%. Iðkendum hefur hins vegar fækkað á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017 til 2022 um 15%.

Mynd 7

Iðkendum í frjálsíþróttum á landsbyggðinni hefur fækkað verulega

Eini landshlutinn á landsbyggðinni sem haldið hefur sínum iðkendafjölda í frjálsíþróttum á milli áranna 2004-2022 er Norð-Vesturland (Skagafjörðurinn og Húnavatnssýslurnar) eða í kringum 340 iðkendur. Á öðrum svæðum landsbyggðarinnar hefur fækkun iðkenda frá 2004 til 2022 verið frá 45%-100%. Á Reykjanesi hefur enginn iðkandi verið skráður frá árinu 2017. Á Vesturlandi voru iðkendur 499 árið 2004 en eru 127 árið 2022 eða 74,5% fækkun. Á Vestfjörðum voru iðkendur 349 árið 2004 en voru komnir niður í 99 árið 2022 eða fækkun um 71,6%. Á Norð-Austurlandi voru iðkendur 596 árið 2004 en 329 árið 2022 eða 44,8% fækkun. Á Austurlandi voru iðkendur 356 árið 2004 en 109 árið 2022 sem er fækkun um 69,4%. Að síðustu eru tölur af Suðurlandi en þar voru iðkendur 1053 árið 2004 en hafði fækkað um 67,5% árið 2022 og voru þá 342.
Iðkendum á landsbyggðinni hefur því fækkað úr 3206 árið 2004 í 1434 árið 2022 sem er 55% fækkun. (Sjá myndir 8 og 9)

Mynd 8
Mynd 9

Iðkendahlutfallið í frjálsíþróttum á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar hefur breyst verulega

Árið 2004 voru skráðir iðkendur í frjálsíþróttum á landsbyggðinni 65,5% af heildariðkendafjöldanum en á höfuðborgarsvæðinu sama ár voru skráðir iðkendur 34,5% af heildariðkendafjöldanum. Árið 2022 eru iðkendahlutfall landsbyggðarinnar komið niður í 40% heildariðkendafjöldans en höfuðborgarsvæðið komið í 60% heildariðkendafjöldans í frjálsíþróttum. (Sjá mynd 10)

Mynd 10

Umræða

Þó iðkendatölur gefi hugsanlega ekki heildarmynd af umfangi eða gæðum frjálsíþróttastarfsins hverju sinni geta þær gefið ákveðnar vísbendingar ekki síst um umfangið. Keppendatölur gefa líklega sannari mynd af umfangi frjálsíþróttastarfsins. Samkvæmt því sem hér kemur fram sýnir iðkendafjöldi, keppendafjöldi og afrekafjöldi í frjálsíþróttum á landinu sömu tilhneigingu, fækkun frá 2004 til 2022 og verulega fækkun frá 2017-2022. Á sama tímabili 2004-2022 hefur frjálsíþróttaiðkendum fækkað verulega á landsbyggðinni en fjölgað nokkuð á höfuðborgarsvæðinu.
Þessar niðurstöður vekja óneitanlega upp spurningar. Af hverju fækkar iðkendum í frjálsíþróttum á meðan íþróttaiðkendum fjölgar um rúmlega 50.000 á landinu á sama tímabili? Af hverju fjölgar frjálsíþróttaiðkendum á höfuðborgarsvæðinu á meðan veruleg fækkun verður á landsbyggðinni? Hvernig hefur aðstaða til iðkunar breyst á tímabilinu 2004-2022 sem hugsanlegur áhrifavaldur í fækkun eða fjölgun? Er samkeppnin við aðrar íþróttagreinar óhagstæðari í dag en hún var 2004. Hefur íþróttafélögum sem standa fyrir frjálsíþróttastarfi fækkað? Hefur leiðtogum, sjálfboðaliðum og þjálfurum fækkað?
Eftir stendur fækkun skráðra iðkenda og keppenda í frjálsíþróttum og íþróttin færist niður listann yfir fjölmennustu íþróttagreinar landsins. Undirritaður vonast til að þessi úttektin geti orðið hvati til sóknar í frjálsíþróttum til að tryggja fleiri iðkendum tækifæri til að taka þátt í frjálsíþrótum sem eru fjölbreyttar, skemmtilegar, mannbætandi og aðalgrein Ólympíuleikanna.

Heimildir:

Tölfræði ÍSÍ fyrir árin 2004-2022
Mótaforrit FRÍ, Þór

Þráinn Hafsteinsson
Íþróttafræðingur

Exit mobile version