Hilmar Örn: „Ég er vel undirbúinn og klár í slaginn“

Evrópumeistaramótið í München heldur áfram á morgun, miðvikudag. Þá munu tveir Íslendingar stíga á stokk, þeir Hilmar Örn Jónsson og Guðni Valur Guðnason. Hilmar mun keppa í undankeppni sleggjukasts karla en þetta verður hans fyrsta Evrópumeistaramót.

Hilmar hefur átt mjög gott tímabil en hans lengsta kast á árinu til þessa kom á móti í Þýskalandi í maímánuði. Það mældist 75,52m og setur hann í 25. sætið yfir lengstu köst Evrópubúa á árinu. „Tímabilið hefur gengið mjög vel, ég skipti um þjálfara í apríl og með því fylgdu nokkrar áherslubreytingar. Ég byrjaði tímabilið mjög vel og hefði viljað fylgja því aðeins betur eftir, en engu að síður held ég að mér hafi að mestu tekist að fylgja mínu plani og gera það sem ég ætlaði mér. Á þessu tímabili hef ég kannski ekki kastað eins langt og ég hef gert áður, en ég hef unnið sterk mót og aukið töluvert stöðugleika,“ sagði Hilmar en Íslandsmet hans frá árinu 2020 er 77,10m.

Hilmar keppti á HM í Oregon í síðasta mánuði og stóð sig vel. „Það var eiginlega ótrúlegt að vera á HM vegna þess að það hafði verið markmiðið svo lengi að komast þangað. En ég þurfti líka að halda fókus og minna mig á að ég var mættur til að keppa, sem ég held að hafi tekist vel.“ Hilmar kastaði lengst 72,72m og hafnaði í 24. sæti í undankeppninni. Hann átti hins vegar eitt enn lengra kast sem hefði getað komið honum í úrslitin en það var því miður ógilt. 

„Það var auðvitað svekkjandi að eiga ógilt kast sem var nógu langt til að komast í úrslit, en köstin sem ég enda með voru nokkurn veginn á pari við það sem ég hafði verið að gera á tímabilinu þannig að ég var nokkuð sáttur. Það er erfitt að segja til um hvort eitthvað hefði mátt fara betur, af því að í raun og veru kasta ég mjög langt og keppi mjög vel,“ sagði Hilmar. 

Evrópumeistaramótið verður því annað stórmót Hilmars á árinu. Hann segir að aðaláherslan fyrir tímabilið hafi verið heimsmeistaramótið. „Það er aðeins öðruvísi tilfinning að komast inná EM núna vegna þess að það er á sama ári og HM. Ég einbeitti mér eiginlega bara að því að komast inná HM og spáði lítið í annað. Þannig að tilfinningin er eiginlega sú að EM er smá bónus fyrir gott tímabil,“ sagði Hilmar sem er vel stemmdur fyrir keppni morgundagsins. 

Í aðdraganda EM æfði Hilmar úti í Svíþjóð en þjálfari hans, Mattias Jons, er búsettur þar. „Það var mikilvægt að hitta á hann og æfa í smá hita. Æfingar hafa gengið mjög vel, ég var einhverjar vikur að stilla mig af eftir HM en er núna kominn aftur á gott ról. Formið er mögulega betra en fyrir HM en engu að síður er planið óbreytt og ég reyni bara að gera það sama og þar.“

Hilmar hefur mikla reynslu af stórum mótum en hann hefur tvisvar tekið þátt á HM auk þess að hafa tekið þátt á mörgum stórmótum í unglinaflokki. Þá keppti hann fyrir Háskólann í Virginíu á árunum 2016-2019 og lenti m.a. í 3. sæti á bandaríska háskólameistaramótinu árið 2019. Þessi reynsla mun án efa nýtast honum á EM. 

Hilmar í hringnum á HM í Oregon. Mynd: Getty Images.

„Þetta er bara eins og hvert annað mót og ég mæti bara að keppa. Ég held að reynsla mín af stórmótum nýtist mest í því að vita við hverju á að búast í sambandi við stærðina og skipulagið og annað. HM var auðvitað dýrmæt reynsla vegna þess að þar staðfesti ég eiginlega að ég geti vel verið í úrslitum. Eins og ég segi hafði ég lítið hugsað út í EM fyrr en eftir HM en engu að síður er ég vel undirbúinn og klár í slaginn,“ sagði þessi frábæri kastari sem á fína möguleika á að vera í hópi þeirra tólf sem komast í úrslit á morgun.

„Markmiðið mitt er eiginlega alltaf það sama, sem er bara að mæta tilbúinn og framkvæma góð köst. EM er nokkurn veginn jafnsterkt og HM í sleggju þannig að það eru góðir möguleikar á því að ég verði í úrslitum. En eins og ég segi þá ætla ég bara að byrja á því að mæta undirbúinn og keppa.“

Hilmar verður fyrstur í kaströðinni í kasthópi A og hefst keppnin kl. 7:35 á íslenskum tíma. Keppnin verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst útsending kl. 7:30.

Silfrið óskar Hilmari góðs gengis á morgun!