HM í Eugene: Cheptegei varði titilinn

Hlaupið var til úrslita í 10,000m hlaupi karla á heimsmeistaramótinu í Eugene í dag. Hlaupið var jafnt framan af og enginn virtist vilja taka af skarið. Þegar 2,000m voru eftir af hlaupinu voru enn 15 hlauparar í fremsta hóp. Fljótlega eftir það jókst þó hraðinn og það fór týnast hægt og rólega úr hópnum en þegar einn hringur var eftir voru átta hlauparar enn í séns. Heimsmethafinn og heimsmeistarinn frá því í Dóha, Joshua Cheptegei frá Úganda, tók þá forystuna en Ólympíumeistarinn Selemon Barega frá Eþíópíu fylgdi fast á hæla hans. Cheptegei lét þó ekki forystuna af hendi og kom fyrstur í mark á tímanum 27:27,43 og varði þar með heimsmeistaratitil sinn. Barega gaf hins vegar eftir á lokametrunum og endaði fimmti. Keníumaðurinn Stanley Waithaka Mburu var sterkur á lokasprettinum og hljóp sig upp í annað sætið og endaði á tímanum 27:27,90. Bronsverðlaunahafinn frá Tókýó og landi Cheptegei, Jacob Kiplimo, kom þriðji í mark aðeins sjö hundraðshlutum á eftir Mburu. Bandaríkjamaðurinn Grant Fisher hljóp síðasta hringinn vel og endaði fjórði aðeins 17 hundraðshlutum frá bronsinu.