Guðbjörg sigraði á nýju Íslandsmeti

Þrír Íslendingar kepptu á Sprint’n’Jump mótinu sem fram fór í Árósum í Danmörku í kvöld. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði í 60m hlaupi kvenna á nýju glæsilegu Íslandsmeti.

Guðbjörg hljóp á 7,55s í undanúrslitunum og náði fjórða besta tímanum inn í úrslitin. Heimakonan Matilde Uldall Kramer hljóp hraðast á 7,39s. Þar á eftir komu Bretinn Georgina Diana Naomi Adam og Pólverjinn Paulina Paluch, báðar á 7,44s.

Í úrslitahlaupinu hitti Guðbjörg vel á það og kom fyrst í mark á tímanum 7,35s. Það er bæting á hennar eigin Íslandsmeti um 8 hundraðshluta. Adam kom önnur í mark á tímanum 7,37s og Paluch þriðja á 7,42s. Fyrir sigurinn fékk Guðbjörg 700 evrur í verðlaunafé sem samsvarar um 110 þúsund íslenskum krónum. Þess má geta að fyrir mótið átti Guðbjörg sjöunda besta tíma þeirra sem hlupu í kvöld.

Sprint’n’Jump mótið er flokkað sem brons mót á innanhússmótaröð Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, World Indoor Tour, og er því í styrkleikaflokki C. Með sigrinum fær Guðbjörg því auka 60 stig fyrir árangurinn sem mun nýtast henni vel við að klífa upp heimslistann.

Kolbeinn Höður Gunnarsson keppti einnig í 60m hlaupi á mótinu í kvöld. Hann hljóp á 6,80s í undanúrslitunum og var sjötti inn í úrslitin. Þar hljóp hann á 6,73s sem er einungis fimm hundraðshlutum frá Íslandsmetinu sem hann setti fyrr í mánuðinum. Þetta er þriðja mótið í röð sem Kolbeinn hleypur undir gamla Íslandsmeti Einars Þórs Einarssonar (6,80s). Kolbeinn hafnaði í sjötta sæti sem gefur honum auka 30 stig fyrir árangurinn inn á heimslistann. Skotinn Adam Thomas sigraði í hlaupinu á tímanum 6,61s. Þar á eftir komu heimamennirnir Kojo Musah á 6,66s og Simon Hansen á 6,67s.

Þriðji Íslendingurinn sem keppti á mótinu í kvöld var Irma Gunnarsdóttir. Hún keppti í þrístökki og hafnaði í þriðja sæti. Lengsta stökk Irmu í kvöld var 12,87m en Íslandsmet hennar er 13,13m. Þetta er þriðja mót Irmu í röð þar sem hún stekkur yfir gamla Íslandsmetinu sem var í eigu Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur (12,83m). Ítalinn Ottavia Cestonaro vann með stökki upp á 13,58 og heimakonan Janne Nielsen var önnur með 13,06m. Fyrir þriðja sætið fékk Irma auka 45 stig inn á heimslistann ásamt 300 Evru verðlaunafé sem jafngildir tæpum 50 þúsund íslenskum krónum.