EM í München: Hilmar kastaði 76,33m og komst áfram í úrslit

Þriðji dagur Evrópumeistaramótsins í München hófst í morgun með undankeppni sleggjukasts karla. Þar var Íslandsmethafinn Hilmar Örn Jónsson á meðal keppenda.

Hilmar var fyrstur í kaströðinni af þeim þrettán sem mættir voru til keppni í fyrri kasthópnum. Hann gerði ógilt í fyrsta kasti en náði fínu kasti í annarri umferð. Það mældist 72,87m sem setti hann í fimmta sætið. Ólíklegt var þó að það myndi duga í úrslit. Hilmar gaf allt í sitt þriðja og síðasta kast. Það var afar vel heppnað og mældist 76,33m. Þetta er lengsta kast Hilmars á árinu og jafnframt hans lengsta kast síðan hann setti Íslandsmetið árið 2020 sem er 77,10m.

Kasta þurfti 77,50m til að komast beint inn í úrslitin. Það var einungis Ólympíumeistarinn Wojciech Nowicki sem afrekaði það í þessum fyrri kasthópi. Hilmar hafnaði í þriðja sætinu kasthópnum og verður að teljast afar líklegt að það dugi inn í úrslitin sem fara fram annað kvöld.

Uppfært kl. 9:40.

Nú er keppni í síðari kasthópi lokið. Þar voru fjórir sem köstuðu lengra en Hilmar. Hilmar hafnar því í sjöunda sætinu í undankeppninni og kemst áfram í úrslitin sem fara fram kl. 18:10 annað kvöld.

Ríkjandi Evrópumeistari, Pólverjinn Pawel Fajdek, kastaði lengst allra í undankeppninni (79,76m). Landi hans Nowicki átti næstlengsta kastið (78,78m) og Úkraíinumaðurinn Mykhaylo Kokhan það þriðja lengsta (77,85m).