Warholm opnar tímabilið á heimavelli og Ingebrigsten með augun á heimsmetinu í 1500m

Í kvöld fara fram Bislett Games á Bislett leikvanginum í Ósló. Mótið er hluti af Demantamótaröðinni og er það fimmta í röðinni þetta árið. Á meðal keppenda á mótinu er fjórir heimsmethafar, þeirra á meðal eru heimamennirnir Jakob Ingebrigsten og Karsten Warholm. Alls hafa verið sett 25 heimsmet á mótinu síðan það hóf göngu sína árið 1965 en það er aldrei að vita nema það 26. verði sett í kvöld.

Slær Ingebrigsten heimsmetið?

Jakob Ingebrigsten náði besta tíma frá upphafi í 2 mílu hlaupi á Demantamótinu í París í síðustu viku. Í kvöld hleypur hann hefðbundnari vegalengd og reynir fyrir sér í 1500m hlaupi. Norðmaðurinn á heimsmetið í 1500m innanhúss og hefur gefið það út að hann hafi nú augun á heimsmetinu utanhúss. Metið er í eigu Hicham El Guerrouj utanhúss og stendur í 3:26,00. Besti tími Ingebrigstens er 3:28,32 frá því á Ólympíuleikunum í Tókýó. Það verður ærið verkefni fyrir Norðmanninn að bæta metið sem staðið hefur í tæp 25 ár en hann er þó til alls líklegur og mun án efa fá dyggilegan stuðning frá heimamönnum á pöllunum.

Ingebrigsten mun fá góða keppni frá Timothy Cheruiyot og Mohamed Katir. Cheruiyot á besta tíma ársins í greininni, 3:31,47. Ingebrigsten hefur hlaupið hraðast á 3:32,59 í ár, það gerði hann þegar hann vann Demantamótið í Rabat nokkuð örugglega. Katir hefur ekki hlaupið 1500m utanhúss í ár en hefur sýnt mjög gott form og á m.a. besta tíma ársins í 5000m hlaupi.

Hvernig kemur Warholm undan vetri?

Karsten Warholm er maður sem þekkir það vel að setja heimsmet á Bislett leikvanginum en hann bætti metið í 400m grind í fyrsta sinn á Bislett Games árið 2021. Hann missti af mótinu í fyrra vegna meiðsla en mætir nú aftur til leiks. Þetta verður fyrsta hlaup sumarsins hjá Warholm en hans síðasta hlaup var í mars þegar hann tryggði sér Evrópumeistaratitilinn innanhúss í 400m hlaupi. Það verður afar spennandi að sjá hvernig kappinn kemur undan vetri en hann er langsigurstranglegastur í hlaupinu. CJ Allen er sá sem hefur hlaupið hraðast í ár af þeim sem eru á keppendalistanum, 47,91s.

Í kvennahlaupinu er Femke Bol langsigurstranglegust en hún hefur byrjað tímabilið af krafti og á besta tíma ársins, 52,43s. Evrópumet hennar stendur í 52,03s og gæti verið í hættu.

Hvað gera Rojas og Duplantis?

Heimsmethafarnir Mondo Duplantis og Yulimar Rojas munu keppa í sínum greinum í kvöld. Rojas á lengsta stökk ársins í þrístökki, 14,96m, en heimsmet hennar er 15,67m. Rojas mun fá verðuga keppni frá Leyanis Perez Hernandez sem stökk 14,84m í Rabat í síðasta mánuði. Maryna Bekh-Romanchuk og Shanieka Ricketts gætu einnig stokkið langt í kvöld.

Duplantis hefur stokkið hæst allra í stangarstökki í ár, 6,11m. Við gætum vel séð heimsmetstilraun í kvöld en met hans er 6,22m. Norðmennirnir Sondre Guttormsen og Pål Haugen Lillefosse munu berjast um annað sætið við þá Christopher Nilsen, Ernest John Obiena og Sam Kendricks.

Heldur Allman sigurgöngunni áfram?

Valarie Allman mun mæta Söndru Perkovic í kringlukasti kvenna. Allman er enn ósigruð í ár og verður að teljast afar sigurstrangleg í kvöld. Allman á lengsta kast ársins, 70,25m, en sú sem hefur kastað næstlengst er Jorinde Van Klinken, 67,05m. Kristin Pudenz og Shanice Craft gætu einnig blandað sér í toppbaráttuna í kvöld.

Hér má nálgast keppendalista mótsins og fylgjast með úrslitum í rauntíma. Sýnt verður beint frá mótinu á Youtube og hefst útsending kl. 18:00 á íslenskum tíma.