Fjórði dagur bandaríska meistaramótsins – Mu rétt marði sigur og óvæntur sigurvegari í 110m grind

Bandaríska meistaramótinu lauk í gær. Að venju náðist frábær árangur og hér verður farið yfir það helsta.

Lyles og Steiner unnu 200m

200m hlaupi karla var beðið með mikilli eftirvæntingu. Þar voru þeir þrír sem eiga bestu tíma ársins mættir til leiks, heimsmeistarinn Noah Lyles, ungstirnið Erriyon Knighton og bandaríski meistarinn í 100m, Fred Kerley. Knighton kom langfyrstur út úr beygjunni og virtist ætla að vinna hlaupið nokkuð auðveldlega. Lyles átti hins svakalega síðustu 50m og náði Knighton á línunni. Lyles endaði á 19,67s (-0,3) og Knighton á 19,69s. Í þriðja sæti varð Fred Kerley á 19,83s og er hann sá eini sem komst bandaríska liðið í bæði 100m og 200m. Kenny Bednarek varð fjórði á 19,87s og komst hann einnig í liðið þar sem Lyles hafði nú þegar þátttökurétt sem núverandi heimsmeistari. Bróðir Lyles, Josephus, varð fimmti á 19,93s og situr eftir með sárt ennið.

Úrslitum í 200m hlaupi kvenna var einnig beðið með mikilli eftirvæntingu. Jenna Prandini byrjaði hlaupið best af öllum og kom fyrst út úr beygjunni. Þar á eftir komu Tamara Clark og háskólameistarinn Abby Steiner sem átti besta tíma ársins í heiminum fyrir hlaupið. Síðustu 50 metrana sýndi Steiner hvað hún er sterk og náði fram úr bæði Clark og Prandini og kom fyrst í mark á tímanum 21,77s (-0,3). Þetta er bæting á hennar besta um þrjá hundraðshluta úr sekúndu og var besti tími ársins í nokkrar klukkustundir eða allt þar til Shericka Jackson hljóp á 21,55s á jamaíska meistaramótinu. Clark endaði önnur á 21,92s og Prandini þriðja á 22,01s. Bronsverðlaunahafinn frá því í Tókýó í fyrra, Gabby Thomas, endaði í áttunda sætinu á tímaum 22,47s. Fyrir um ári síðan á úrtökumótinu fyrir Tókýó á sama velli hljóp Thomas á tímanum 21,61s sem var þá annar besti tími sögunnar (er núna sá fjórði besti eftir að Elaine Thompson-Herah hljóp á 21,53s í Tókýó og Jackson hljóp 21,55s á jamíaska meistaramótinu í gær). Thomas hefur verið að glíma við meiðsli aftan í læri sem eru greinilega enn að hrjá hana. Sha’Carri Richardson komst ekki í úrslit 200m hlaupsins, líkt og í 100m, og mun því ekki vera með á HM í ár.

Óvænt úrslit í 110m grindahlaupi karla

Í úrslitum 110m grindahlaupsins voru tveir hröðustu menn ársins mættir til leiks, þeir Devon Allen og Trey Cunningham. Allen er búinn að hlaupa á 12,84s í ár sem er þriðji besti tími sögunnar. Cunningham, sem varð bandarískur háskólameistari fyrr í mánuðinum, hefur hlaupið hraðast á 13,00s í ár. Það var hins vegar Daniel nokkur Roberts sem leiddi úrslitahlaupið frá upphafi til enda og varð bandarískur meistari. Hann kom í mark á tímanum 13,03s (+1,2). Baráttan um hin tvö sætin í bandaríska liðinu fyrir HM var mjög hörð en það fór svo að Cunningham og Allen náðu öðru og þriðja sætinu á tímunum 13,08s og 13,09s. Jamal Britt kom í mark á sama tíma og Allen en varð að láta sér fjórða sætið lynda og missir því af HM þrátt fyrir að eiga núna 4. besta tímann í heiminum í ár. Núverndi heimsmeistarinn í greininni, Grant Holloway, mætti ekki í úrslitin enda nú þegar með þátttökurétt á HM.

Athing Mu vann naumlega

Þrjár stórstjörnur voru mættar til leiks í úrslitahlaup 800m kvenna, Ólympíumeistarinn Athing Mu, bronsverðlaunahafinn frá Tókýó, Raevyn Rogers, og bronsverðlaunahafinn frá HM í Doha, Ajee Wilson. Mu tók forystu í hlaupinu strax í byrjun líkt og hún gerir yfirleitt en Wilson var ekki langt á eftir henni. Rogers lá hins vegar aftarlega í hópnum og ætlaði að treysta á sinn góða endasprett eins og svo oft áður. Mu fór í gegnum 400m á 57,40s og leit vel út. Hún leiddi hlaupið allt þar til um 30 metrar voru eftir en þá virtist Wilson ætla að síga fram úr henni. Mu náði átti hins vegar örlítið inni sem hún náði að kreista fram á lokametrunum og kom í mark sjónarmun á undan Wilson. Mu endaði á tímanum 1:57,16 og Wilson á 1:57,23. Sigurganga Mu heldur því eitthvað áfram en hún hefur ekki tapað hlaupi síðan árið 2019. Rogers náði síðan að rífa sig úr sjöunda sætinu upp á það þriðja á síðustu 150m með góðum endaspretti. Hún endaði á tímanum 1:57,96.

Bryce Hoppel vann 800m hlaup karla á tímanum 1:44,60, Jonah Koech varð annar á 1:44,74 og Brandon Miller þriðji á 1:45,19. Bronsverðlaunahafinn frá því á Ólympíuleikunum í Ríó, Clayton Murphy, varð fjórði einungis fjórum hundraðshlutum úr sekúndu á eftir Miller og mun því þurfa að horfa á heimsmeistaramótið úr sófanum heima.

Benjamin á besta tíma ársins og Ealy með lengsta kast ársins

Búist var við öruggum sigri Rai Benjamin í úrslitum 400m grindahlaups karla. Hlaupið var hins vegar jafnara en búist var við. Þegar um 100m voru eftir af hlaupinu var Benjamin í öðru sæti á eftir Khallifah Rosser. Benjamin var hins vegar mun sterkari á síðustu tvær grindurnar og kom fyrstur í mark á tímanum 47,04s sem er besti tíminn í heiminum í ár. Rosser stífnaði mikið upp síðustu 50 metrana og endaði þriðji á 47,65s. Trevor Bassitt varð annar á tímanum 47,47s. Bæði Rosser og Bassitt voru að bæta sinn besta árangur. Benjamin hefur átt erfitt uppdráttar í byrjun tímabilsins en hann veiktist illa af Covid um miðjan maí og hefur einnig verið að glíma við meiðsli. Hann virðist þó vera kominn á réttu brautina og er til alls líklegur á HM í næsta mánuði.

Chase Ealy vann kúluvarp kvenna örugglega en hún kastaði rúmum metra lengra en Adelaide Aquilla sem varð önnur. Ealy varpaði kúlunni 20,51m sem er lengsta kast ársins. Jessica Woodard varð þriðja með kasti upp á 19,40m. Ólympíumeistarinn frá Ríó, Michelle Carter, lenti í áttunda sæti en hún hefur ákveðið að leggja kastskóna á hilluna og var þetta hennar síðasta mót á ferlinum.

Af öðrum úrslitum má helst nefna að Emma Coburn vann til sinna tíundu gullverðlauna á þessu móti í 3000m hindrunarhlaupi þegar hún vann á 9:10,63. Grant Fischer vann 5000 hlaup karla á nýju mótsmeti, 13:03,86. Elise Cranny vann 5000m hlaup kvenna á 15:49,15. Donald Scott varð bandarískur meistari í þrístökki með stökki upp á 17,07m. Gamla kempan Christian Taylor varð fimmti með 16,54m en hann er að koma til baka eftir að hafa slitið hásin í maí í fyrra. Þá vann Shelby McEwen hástökk karla með 2,33m stökki en JuVaughn Harrison varð annar með 2,30m.

Sjá einnig:

Samantekt frá fyrsta degi bandaríska meistaramótsins

Samantekt frá öðrum degi bandaríska meistaramótsins

Samantekt frá þriðja degi bandaríska meistaramótsins